Þrefaldur íslenskur sigur í stórsvigi í Gaal í Austurríki

Þrefaldur sigur kyndir undir Ólympíuspennunni

Karlalandslið Íslands í alpagreinum átti frábæran keppnisdag í morgun þegar keppt var í stórsvigi í Gaal í Austurríki. Þar tryggðu Íslendingar sér þrefaldan sigur, en Gauti sigraði, Bjarni Þór hafnaði í 2. sæti og Matthías í 3. sæti.

Allir þrír bættu FIS-punktana sína, sem hefur jákvæð áhrif á stöðu þeirra bæði á heimslista og á Ólympíulistanum, þar sem baráttan um þátttökurétt heldur áfram að harðna.

Eftir fyrri ferðina var Bjarni Þór með besta tímann, Jón Erik með 2. besta tímann og Gauti með 5. besta tímann. Matthías var með 10. besta tímann og Tobias með 11. besta tímann, á meðan Pétur var með 29. besta tímann og fékk því 2. startnúmer í seinni ferðinni.

Í seinni ferðinni sýndi liðið mikinn styrk. Matthías skilaði besta tíma ferðarinnar, sem lyfti honum upp í 3. sæti á mótinu. Gauti náði 2. besta tímann seinni ferðar, sem dugði honum til sigurs, á meðan Bjarni Þór var með 7. besta tímann og tryggði sér 2. sætið samanlagt.

Jón Erik, sem hafði átt frábæra fyrri ferð, gekk ekki eins vel í seinni og endaði í 7. sæti. Tobias hafnaði í 17. sæti og féll um sex sæti milli ferða. Pétur átti hins vegar góða seinni ferð, keyrði sig upp um fjögur sæti, endaði í 25. sæti og bætti stórsvigspunktana sína sem og stöðu á heimslista.

Sjá úrslit hér

Frábært er að sjá hvernig markviss vinna og öflugt prógram landsliðsþjálfaranna, Hauks Þórs Bjarnasonar og Marko Špoljaric, skilar sér í stöðugum og sterkum árangri hjá liðinu.

Skíðasambandið náði tali af Hauk Þór Bjarnasyni, landsliðsþjálfara karla, og spurði hann hvað liggur að baki góðu gengi landsliðsins undanfarið.

„Ástæður góðs gengis undanfarið eru margar. Þar má nefna Alpagreinanefnd og afreksstjóra SKÍ, sem hafa skapað góðan ramma utan um starfið og lagt ríka áherslu á liðið og liðsheild. Þá hefur ÍSÍ og Ólympíunefnd Íslands greitt götu iðkenda með bæði fjárhagslegum og faglegum stuðningi.Góðar æfingar í haust og vetur eru nú að skila sér, og ekki síst skiptir góð liðsheild öllu máli – að hvetja hvern annan, sama hvernig gengur, þó allir stefni að sama markmiði.Þetta er aðeins byrjunin. Til þess að við getum haldið áfram á þessari vegferð þurfum við allan þann stuðning sem við getum fengið.“

Skíðasamband Íslands óskar keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.
Baráttan um Ólympíusætið heldur áfram og spennan magnast með hverju mótinu. 

Á morgun keppa þeir í svigi í Gaal, áður en liðið heldur til Rogla í Slóveníu, þar sem keppt verður í tveimur svigmótum dagana 17. og 18. janúar.
Þess má geta að 18. janúar er síðasti dagurinn til að skora stig inn á Ólympíulistann, og því eru mótin fram undan afar mikilvæg í áframhaldandi baráttu liðsmanna um þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Ísland á nú þegar eitt sæti á leikunum fyrir karlmann og eitt fyrir konu í alpagreinum, og árangur liðsmanna okkar nú í Gaal og Rogla mun skipta sköpum fyrir þá.

Ólympíulistinn