Fræðslumál

Fræðsluskipulag SKÍ er byggt upp eftir fræðsluskipulagi ÍSÍ og sér SKÍ um kennslu á sérgreinahluta hvers stigs fyrir sig. Fræðsluskipulag SKÍ byggir þannig á áfangaskiptu kerfi ÍSÍ og verður almenni hluti þjálfarastigana alfarið í umsjón ÍSÍ. 

Þjálfaramenntun ÍSÍ er áfangaskipt fræðslukerfi í fimm þrepum þar sem skilgreindar eru kröfur um menntun fyrir ákveðna markhópa. Þetta kerfi er samræmt fyrir allar íþróttagreinar. Fræðslukerfið er í samræmi við samræmdar kröfur sem settar hafa verið fram af "Network of Sport Sciences in Higher Education" (ENSSHE). Jafnframt hafa samtök frjálsra íþróttasamtaka í Evrópu (ENGSO) samþykkt að leggja beri aukna áherslu á menntun þjálfara, leiðbeinenda og leiðtoga fyrir íþróttastarf barna og unglinga.

Menntun á fyrstu þrem þrepunum, sem kallast almennur hluti, er innan íþróttahreyfingarinnar. Þjálfarastig 4 og 5 eru háskólamenntun. Fyrstu þrjú þrepin eru hvert um sig 120 kennslustundir að lengd:  Þeim er ýmist skipt niður í 20 stunda afmarkaðar einingar eða styttri einingar. Ýmist eru þessar einingar almennar og í umsjón ÍSÍ eða sérhæfðar í umsjón sérsambands. Almenni hluti námskeiðanna fer fram í fjarnámi. 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og sambandsaðilar þessa stefna að því:

  1. að allir þjálfarar sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi hafi fullnægjandi og viðeigandi menntun til þeirra þjálfarastarfa sem þeir vinna. 
  2. að tryggja réttindi allra þjálfara með fullnægjandi og viðeigandi menntun til að starfa við þjálfun á vegum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.
  3. að við samninga um starfskjör þeirra þjálfara sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi verði tekið tillit til menntunar þeirra, reynslu og annars sem aukið getur hæfni þeirra sem þjálfa. 
  4. að vinna að því að mikilvægi þjálfarastarfsins og nauðsyn á góðri þjálfaramenntun öðlist aukna viðurkenningu, bæði innan íþróttahreyfingarinnar og meðal almennings. 

Alpagreinar

Í alpagreinum vinnur SKÍ að sínu eigin kennsluefni á fyrstu tveimur stigum sérgreinahluta menntunarinnar. Námskeiðin gilda sem alþjóðleg réttindi. 

  • Þjálfari 1 verður kennt að lágmarki einu sinni á ári
  • Þjálfari 2 verður kennt að lágmarki einu sinni annað hvert ár.

Árlega er stefnt á að halda eitt opið námskeið sem hugsað er líka sem endurmenntunarnámskeið.

Skíðaganga

Verið er að skoða hvaða efni er í boði til að setja saman þjálfarastigin í skíðagöngu.

Snjóbretti

Verið er að skoða hvaða efni er í boði til að setja saman þjálfarastigin á snjóbrettum.

Eftirlitsmenn

Árlega er verið að uppfæra reglur og reglugerðir í hreyfingunni okkar og því þurfa eftirlitsmenn sífellt að vera að uppfæra þekkingu sína. Árlega verður haldið námskeið fyrir eftirlitsmenn og er það hugsað fyrir nýja eftirlitsmenn sem og þá sem vilja sækja endurmenntunarnámskeið. 

  • Til þess að vera eftirlitsmaður á mótum á vegum SKÍ þarf að hafa lokið eftirlitsmannanámskeiði á síðustu 5 árum.