Starfslaun afreksíþróttafólks kynnt, öflugur hópur frá Skíðasambandinu

Starfslaun afreksíþróttafólks kynnt, stór tímamót fyrir afreksfólk SKÍ

Í dag voru kynnt starfslaun til afreksíþróttafólks í fyrsta sinn, sem markar mikilvægt skref fyrir íslenskar íþróttir og eflir umgjörð afreksstarfs til framtíðar.

Með þessu nýja kerfi fær afreksíþróttafólk nú laun fyrir sitt afreksstarf og skapast þannig betri grundvöllur til að einbeita sér að æfingum og keppni af fullum krafti.

Starfslaunin eru sett fram til að styðja íþróttafólk í að setja íþróttina í forgang, efla fagmennsku og styrkja undirbúning fyrir keppni á hæsta stigi, bæði heima og erlendis. Þessi breyting er mikilvægur áfangi í að efla langtímaþróun og árangur íslenskra afreksmanna.

Alls 32 einstaklingar og 3 pör hljóta starfslaun á komandi tímabili. Flestir fá úthlutun til tólf mánaða, en skíða- og snjóbrettafólkið sem stefnir á þátttöku á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu 2026 er tryggður stuðningur fram yfir leikana eða alls 9 mánuði.  


Afreksfólk Skíðasambands Íslands sem hlýtur starfslaun

  • Anna Kamilla Hlynsdóttir 

  • Bjarni Þór Hauksson

  • Dagur Benediktsson

  • Gauti Guðmundsson

  • Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir

  • Jón Erik Sigurðsson

  • Kristrún Guðnadóttir

  • Matthías Kristinsson

Viðbrögð afreksfólks SKÍ

Bjarni Þór Hauksson - alpagreinar

„Fyrir mig þýðir þetta ótrúlega mikið og ég er mjög þakklátur fyrir þennan stuðning. Hann hjálpar auðvitað mikið með þeim fjárhagslegu kostnaði sem fylgir því að stunda íþróttina. Starfslaunin gera mér kleift að leggja mig allan fram í minni íþrótt og hámarka árangur. Það skiptir mig líka miklu máli að afreksmiðstöðin hafi trú á mér og verkefninu okkar.

Áfram Ísland!."   

Dagur Benediktsson - skíðaganga

 Starfslaunin veita mér stöðugri fjárhagslegan grunn og meira svigrúm til að einbeita mér alfarið að íþróttinni. Um leið eru þau viðurkenning og styðja mig í átt að stærri markmiðum."

Gauti Guðmundsson - alpagreinar

„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þessi starfslaun. Þetta er mikil hvatning og mun hjálpa mér að leggja enn meira á mig í minni íþrótt. Það skiptir mig miklu máli að fá þessa viðurkenningu og styrkir mig í áframhaldandi vegferð auk þess sem þetta gerir mér kleyft að gefa meira af mér sem íþróttamaður og fyrirmynd."   

Kristrún Guðnadóttir - skíðaganga

„Það er mikil heiður að vera partur af hóp sem fær starfslaun. Þetta hjálpar mér mikið og gefur mér stuðning til að eyða meiri tíma í að vera betri skíðakona á hverjum degi. Þetta gleður mig líka fyrir framtíðina að vita að íþróttakonur fái borgað fyrir þessa mikla vinnu sem við leggjum inn."


Skíðasamband Íslands vill þakka Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Afreksmiðstöð Íslands fyrir vandað fagstarf, góða samvinnu og öflugan stuðning við innleiðingu starfslaunanna. Nýja fyrirkomulagið eflir afreksstarf verulega og mun án efa hafa jákvæð áhrif á áframhaldandi framfarir og árangur okkar skíða- og snjóbrettafólks.

Við hlökkum til að fylgjast með spennandi verkefnum og framgangi afrekshópsins á næstu misserum og stöndum áfram þétt við bakið á okkar frábæru íþróttafólki.