Snorri í 15.sæti í Beitostølen

Áfram heldur landsliðsmaðurinn Snorri Einarsson að gera góð úrslit. Í dag keppti hann í 15 km göngu með hefðbundinni aðferð á gríðarlega sterku móti í Noregi og endaði í 15.sæti. Aðstæður voru erfiðar í dag, brautin var þung og blaut Fyrir mót var Snorri með 45. bestu punktastöðuna og er hann því að vinna sig upp um 30.sæti miðað við FIS punktastöðu. Þrátt fyrir góðan árangur útfrá sætum fær Snorri 55.56 FIS punkta sem er aðeins frá hans besta. Snorri var 28. eftir fyrstu 5 km en næstu 5 km voru góðir og var hann kominn í 15.sætið eftir 10 km og hélt því sæti út gönguna. Eins og áður segir er þetta flottur árangur en mótin í Beitostølen í upphafi hvers árs eru ein erfiðustu FIS mót ársins.
Sigurvegari mótsins í dag var Didrik Tønseth en hann er í dag í 6.sæti á heimslistanum í lengri vegalengdum. Martin Sundby sem er efstur á heimslistanum og var skráður á ráslista hóf ekki keppni í dag en Petter Northaug endaði í 74.sæti, þó skal það tekið fram að Northaug slakaði mikið á seinni hluta göngunnar.

Hér má sjá úrslit mótsins.

Á morgun verður keppt í 15km göngu með frjálsri aðferð.