Skíðaþing 2021 fór fram um helgina

Um helgina stóð Skíðasamband Íslands fyrir árlegu skíðaþingi sem fór fram á Akureyri, en um var að ræða það 72. í sögu sambandsins. Skíðaþingið var vel sótt en það komu 25 fulltrúar frá 15 aðildarfélögum auk fulltrúa SKÍ úr stjórn og nefndum ásamt starfsfólki.

Ljóst var að breyting yrði á stjórn SKÍ þar sem þrír aðilar höfðu tilkynnt að þeirra myndu stíga til hliðar. Í kosningunum var Bjarni Th. Bjarnason einn í framboði til formanns SKÍ og því sjálfkjörinn. Sama er hægt að segja um nefndarformennina þrjá sem kosið er einnig sér um, formenn alpagreina-, skíðagöngu- og snjóbrettanefndar. Einar Ólafsson og Friðbjörn Benediktsson verða áfram formenn skíðagöngu- og snjóbrettanefndar en Sigurður Sveinn Nikulásson er nýr formaður alpagreinanefndar. Í framboði til þriggja meðstjórnenda voru fimm aðilar í framboði og fór svo að þau Gísli Reynisson, Hugrún Elvarsdóttir og Jón Egill Sveinsson hlutu flest atkvæði. Það koma því fjórir nýjir inní stjórn SKÍ fyrir næstu tvö ár.

Alls voru 12 þingskjöl sem lágu fyrir þingfulltrúum og voru það bæði breytingar á lögum sem og reglugerðum. Helstu breytingar voru:

  • Verðlaun í flokkum 12-15 ára í alpagreinum taka breytingum þannig að núna eru veitt verðlaun fyrir flokkana 12-13 og 14-15 ára en ekki hvern aldur fyrir sig. Upphafleg tillaga gerði ráð fyrir alls sex verðlaunum en breytingartillaga var samþykkt sem var þannig að veitt skulu verðlaun miðað við 15% af keppendum á ráslista, þó ekki færri en þrjú og ekki fleiri en sex verðlaun.
  • Skíðamót Íslands í skíðagöngu verður stærra. Samþykkt var breyting að unglingaflokkar fari af UMÍ og inná SMÍ í skíðagöngu og eftir breytingarnar verður því UMÍ einungis fyrir alpagreinar. SMÍ í skíðagöngu verður því eina íslandsmeistaramótið í skíðagöngu og þá fyrir allan aldur 13 ára og eldri.
  • Framboð til stjórnar komi fyrr í ljós. Samþykkt var lagabreyting á þá leið að núna þurfa framboð til stjórnar SKÍ að liggja fyrir þremur vikum fyrir skíðaþing. Sérstök kjörnefnd er kosin á skíðaþingi árið á undan sem sér um framboð og kosningar.

Líflegar umræður voru á þinginu og þakkar SKÍ fyrir góða mætingu og málefnalega umræðu. Verið er að uppfæra reglugerðir miðað við breytingar og verða þær komnar inn uppfærðar í vikunni. Upplýsingar um nýja stjórn og nefndir má sjá hér.

Fjórir aðilar ganga úr stjórn SKÍ en það eru þau Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir, Fjalar Úlfarsson, Kristinn Magnússon og Snorri Páll Guðbjörnsson. Skíðasamband Íslands vill þakka þeim, ásamt þeim sem fara úr nefndum, kærlega fyrir sitt framlag til hreyfingarinnar undanfarin ár.