Skíðamót Íslands í alpagreinum 2024

Skíðamót Íslands í alpagreinum fór fram í Bláfjöllum um helgina en það voru Ármenningar sem héldu mótið í ár sem var allt hið glæsilegasta.

Vegna veðurs þá var bæði keppt í stórsvigi og svigi á laugardaginn og tóku rúmlega 40 keppendur þátt. Langflest af okkar sterkasta skíðafólki mætti til leiks en jafnframt voru erlendir keppendur þar sem mótið var einnig alþjóðlegt mót.

Aðstæður voru ansi krefjandi vegna mikils vinds en ekki var hægt að kvarta yfir færinu sem var frábært þökk sé öllum brautarstarfsmönnunum. 

Bjarni Þór Hauksson sem keppir fyrir Víking varð þrefaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í stórsvigi, svigi og alpatvíkeppni. Stórsvigið var hans fyrsti Íslandsmeistaratitill á ferlinum. Í öðru sæti í stórsviginu var Tobias Hansen úr Skíðafélagi Akureyrar og í þriðja sæti Gauti Guðmundsson úr KR.

Keppni í svigi karla var afar spennandi en Íslandsmeistarinn frá því í fyrra Matthías Kristinsson úr Skíðafélagi Ólafsfjarðar var með besta tímann í fyrri ferð en náði ekki í að fylgja því eftir í seinni og endaði annar og Gauti Guðmundsson úr KR hreppti sitt annað brons þann daginn.

„Tilfinningin er geðveik. Það hefur alltaf verið draumur að ná þessu. Það er geggjað þegar það tekst loksins,“ sagði Bjarni.

Bjarni Þór Hauksson er búsettur í Geilo í Noregi ásamt fjölskyldu sinni þar sem hann stundar nám og æfingar við NTG skíðamenntaskólann. Þessa má geta að Haukur Bjarnason faðir hans er þjálfari við skólann ásamt Kristni Björnssyni sem er okkar besti skíðamaður frá upphafi. 

Stórsvig karla:

  1. sæti - Bjarni Þór Hauksson - Víkingur
  2. sæti - Tobias Hansen – Skíðafélag Akureyrar
  3. sæti - Gauti Guðmundsson – KR

Svig karla:

  1. sæti – Bjarni Þór Hauksson - Víkingur
  2. sæti – Matthías Kristinsson – Skíðafélag Ólafsfjarðar
  3. sæti – Gauti Guðmundsson – KR

Alpatvíkeppni karla:

  1. sæti – Bjarni Þór Hauksson – Víkingur
  2. sæti - Gauti Guðmundsson – KR
  3. sæti -Tobias Hansen - SKA

Sjá úrslit hér:

Stórsvig karla: National Championships Reykjavik (ISL) (fis-ski.com)

Svig karla: National Championships Reykjavik (ISL) (fis-ski.com)

 

Elín Elmarsdóttir Van Pelt sem keppir einni fyrir Víking vann líka sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil þegar hún sigraði stórsvig kvenna með yfirburðum. Önnur varð Sara Mjöll Jóhannsdóttir úr Ármanni sem keyrði sig upp úr fjóðra sætinu eftir fyrri ferð og þriðja sætið hreppti Eyrún Erla Gestsdóttir úr Víking eftir æsipennandi keppni við Anínu Rós Karlsdóttur sem endaði í fjórða sæti aðeins tveimur hundruðustu á eftir Eyrúnu Erlu en þær voru með sama tíma í 2-3 sæti eftir fyrri ferðina.

„Mér líður bara rosalega vel með þetta. Þetta var mikil barátta og krefjandi vegna vinds. En snjórinn var góður, ég er mjög sátt með þetta. Það er fínt að sjá að svona mikil vinna skili sér,“ sagði Elín.

Elín sem æfir með Skíðaliði Reykjavíkur er búsett á Íslandi og stundar nám í Kvennaskólanum en er mikið erlendis yfir tímabilið við æfingar og keppni. 

Það var æsispennandi keppni í svigi kvenna en Íslandsmeistari varð, eftir að hafa verið með þriðja besta tímann eftir fyrri ferð, Eyrún Erla Gestsdóttir sem einnig keppir fyrir Víking og er þetta hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill. Hjördís Birna Ingvadóttir varð önnur og hélt því sínu sæti frá því í fyrri ferðinni og Sara Mjöll Jóhannsdóttir endaði í þriðja sæti og keyrði sig því upp um eitt sæti.

Rut Stefánsdóttir sem var með besta tímann í fyrri ferð gerði stór mistök í seinni ferð og endaði í fjórða sæti.

Eyrún Erla æfir með Skíðaliði Reykjavíkur og er búsetta Íslandi þar sem hún stundar nám við Verslunarskóla Íslands. Eyrún hefur verið með annan fótinn erlendis við æfingar og keppnir í allan vetur en þess má geta að hún tók þátt fyrir Íslands hönd í Ólympíuleikum ungmenna sem fram fóru í Suður Kóreu í janúar. 

Stórsvig kvenna:

  1. sæti - Elín Elmarsdóttir Van Pelt - Víkingur
  2. sæti - Sara Mjöll Jóhannsdóttir - Ármann
  3. sæti - Eyrún Erla Gestsdóttir – Víkingur

Svig kvenna:

  1. sæti – Eyrún Erla Gestsdóttir - Víkingur
  2. sæti – Hjördís Birna Ingvadóttir - Ármann
  3. sæti – Sara Mjöll Jóhannsdóttir – Ármann

Alpatvíkeppni kvenna:

     1. - 2. sæti- Sara Mjöll Jóhannsdóttir – Ármann og Eyrún Erla Gestsdóttir – Víkingur

     3. sæti- Harpa María Friðgeirsdóttir – Ármann

Sjá úrslit hér:

Stórsvig kvenna: National Championships Reykjavik (ISL) (fis-ski.com)

Svig kvenna: National Championships Reykjavik (ISL) (fis-ski.com)

 

Skíðasamband Ísland óskar öllum verðlunahöfum til hamingju með árangurinn og Skíðadeild Ármanns með glæsilegt mót. Jafnframt þakkar SKÍ öllum sjálfboðaliðunum kærlega fyrir þeirra óeigingjarna starf, án þeirra væri ekki hægt að halda svona mót.

Sérstakar þakkir fá einnig styrktaraðilar mótsins Útilíf og samstarfsaðilar okkar 66 Norður fyrir glæsileg verðlaun og Höldur.