Matthías sigraði alþjóðlegt mót í svigi í Oppdal í Noregi um helgina

Landsliðsmaðurinn okkar Matthías Kristinsson gerði sér lítið fyrir og sigraði alþjóðlegt svigmót sem fram fór í Oppdal í Noregi um helgina. Fyrir sigurinn fékk Matthías 23 FIS punkta sem er hans besti árangur á ferlinum. Matthías mun þar að leiðandi klífa töluvert upp heimslistann. Matthías var með þriðja besta tímann eftir fyrri ferð en gaf allt í þetta í seinni og endaði sem sigurveigari, þremur hundruðustu á undan svíanum Emil Nyberg.

“Ég er ótrúlega stoltur og þetta var virkilega óvænt” sagði Matthías eftir sigurinn.

Landsliðsmaðurinn okkar Gauti Guðmundsson endaði í 13. sæti í svigi á Lúxemborgíska meistaramótinu, sem haldið var í Val d‘Isére í Frakklandi, eftir að hafa verið með rásnúmer 34 og náð 30 sæti eftir fyrri ferð. Gauti notfærði sér það að starta fyrstur í seinni ferð og gaf allt í botn og fékk lang besta tímann í þeirri ferð og keyrði sig upp um 17 sæti. Fyrir mótið fékk hann 29.27 FIS punkta sem er einnig hans besti árangur á ferlinum. Það er stór áfangi að skora undir 30 FIS punkta og því eru okkar menn að standa sig gríðarlega vel.

«Ég er mjög glaður með árangurinn, gaman að sjá hvernig þrotlaus vinna og æfingar yfir síðastliðið ár skila sér. Núna er planið bara að gefa ennþá meira í þetta, æfa vel í sumar, og koma ennþá sterkari inn í næsta tímabil» sagði Gauti eftir mótið.