Lokaundirbúningur í fullum gangi fyrir Ólympíuleikana

Undirbúningur íslensku keppendanna fyrir Ólympíuleikana í Milan Cortina á Ítalíu er nú á lokametrunum og víða er keppt um afar dýrmæt stig á Ólympíulistann.

Anna Kamilla keppir í dag í sínu fyrsta heimsbikarmóti í slopestyle sem fram fer í Snowmass, í Colorado í Bandaríkjunum. Undanúrslit fara fram í dag og þarf Anna Kamilla að ná sæti meðal topp 8 keppenda til að tryggja sér þátttöku í úrslitum. Mikilvæg Ólympíustig eru í boði, enda skiptir miklu máli hversu ofarlega hún nær að enda í keppninni. Að auki mun Anna Kamilla taka þátt í heimsbikarmóti í slopestyle í Laax í Sviss dagana 16.–18. janúar, þar sem einnig verða í boði mikilvæg stig.

Jón Erik, Gauti og Bjarni Þór eru þessa dagana að keppa í stórsvigi í Koralpe í Austurríki. Keppnin hófst með fyrri ferð í gær, en seinni ferðin var kláruð snemma í morgun. Þar náði Bjarni Þór 9. sæti, Jón Erik endaði í 11. sæti og Gauti í 12. sæti. Landsliðsstrákarnir í alpagreinum munu einnig taka þátt í fleiri mótum síðar í janúar í þeirri von að bæta við sig Ólympíustigum.

Kristrún keppir á FIS-mótum í Falun í Svíþjóð dagana föstudag, laugardag og sunnudag. Dagur er enn að jafna sig eftir veikindi og sleppir því þessum mótum, en er kominn á fullt í æfingar. Hann heldur til Ítalíu þann 14. janúar, þar sem hann mun vera í hæðarþjálfun fram að leikunum.

Kristrún hefur hins vegar ákveðið að falla frá hæðarþjálfun fyrir Ólympíuleikana, þar sem hæðarþjálfunin í haust skilaði ekki þeim árangri sem vonast var eftir.

Matthías heldur til Cavalese á Ítalíu, þar sem hann keppir um helgina í tveimur alþjóðlegum stórsvigsmótum og reynir þar að bæta við sig Ólympíustigum.

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir er meidd og ljóst er að hún mun ekki taka þátt í neinum mótum fyrir Ólympíuleikana. Hún er þó í kapphlaupi við tímann að ná sér að fullu svo hún geti tekið þátt í leikunum.

Síðasti dagur til að keppa sér inn stig á Ólympíulistann er 18. janúar, en 19. janúar kemur í ljós hverjir hljóta sæti á Ólympíuleikunum.

Eins og staðan er í dag á enginn íslenskur keppandi öruggt sæti á Ólympíuleikunum, en einungis þeir sem eru í topp 30 á heimslista eiga tryggt sæti. Dagur og Kristrún eru þó langlíklegust til þátttöku í skíðagöngu, á meðan Hólmfríður Dóra er sem stendur hæst á Ólympíulistanum í sinni grein og Jón Erik stendur hæstur meðal alpakeppenda karla. Gauti, Matthías og Bjarni Þór eru þó allir að minnka bilið hratt. Ef Anna Kamilla nær tilskildum stigum mun hún tryggja sér sitt sæti á Ólympíuleikunum, og baráttan um Ólympíusæti er því hörð og spennandi fram á síðustu stundu.

Hér er hægt að fylgjast með úrslitum í mótunum sem landsliðsfólk okkar tekur þátt í þessa dagana:

Alpagreinar

Skíðaganga

Snjóbretti