Lokadagur HM í alpagreinum 2023

Gauti einbeittur á svip
Gauti einbeittur á svip

Heimsmeistaramótinu í alpagreinum lauk í gær með keppni karla í svigi. Gauti Guðmundsson keppti þar fyrir hönd okkar Íslendinga og bar rásnúmerið 78. Brautin var mjög krefjandi og áttu margir af bestu skíðamönnum heims í vandræðum með fyrstu beygjur brautarinnar.

Gauta hlekktist snemma á og taldi sig hafa krækt en hann lét það ekki slá sig út af laginu, leiðrétti mistökin og kláraði ferðina með sóma. Þessi mistök þýddu það þó að hann átti aldrei möguleika á að komast áfram í seinni ferð og endaði hann að lokum í 70. sæti. Þegar millitímar Gauta eru skoðaðir má sjá að hann hefði tryggt sig inn á topp 60 ef hann hefði haldið svipuðum dampi í gegnum alla brautina en því fór sem fór. 

Íslenski hópurinn hélt svo að loknu móti í sitt hvora áttina. Katla Björg til Austurríkis til áframhaldandi æfinga með liði sínu Lowlanders. Gauti og Jón Erik eru hins vegar á leiðinni til Íslands og ná vonandi að keppa á bikarmótum SKÍ sem verða haldin á næstunni.

Það hefur verið góð stemning hér í Frakklandi og íslenski hópurinn haldið þétt saman þrátt fyrir að aðsetur karlanna hafi verið efst í þorpinu Corchevel en kvennanna efst í öðru þorpi Meribel og um 50 mínútna akstur þar á milli. Keppni kvenna og karla var einnig á sitthvorum staðnum en keppendur reyndu eftir því sem því var við komið að koma á keppnir hvors annars til að hvetja og styðja.

Skíðasamband Íslands þakkar sínum keppendum fyrir þátttökuna.