Í dag tók hinn 16 ára gamli Jónar S. Giljan Grímsson, keppandi fyrir íþróttafélagið KR, þátt í keppni á Evrópumótaröðinni í brekkustíl (Slopestyle) sem fram fór í Trysil í Noregi. Um var að ræða undanúrslitakeppni þar sem 8 efstu keppendur tryggðu sér sæti í úrslitum, sem fram fara á morgun með alls 16 keppendum sem komast áfram úr tveimur undanúrslitahópum. Þetta er í fyrsta skiptið sem Jónar tekur þátt í Evrópumótaröðinni og því í fyrsts skiptið sem Íslendingur keppur í þessari mótaröð fyrir íslandshönd í skíðafimi.
Keppnin var einstaklega sterk, með um 60 keppendum frá rúmlega 10 löndum, þar á meðal keppa fremstu skíðafimis íþróttamenn heims. Meðal þátttakenda var til að mynda Birk Ruud, núverandi heimsmeistari í brekkufimi og fremsti keppandi í skíðafimi á heimsvísu.
Jónar náði ekki að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni að þessu sinni, en hann endaði í 14. sæti í dag. Í seinni ferð dagsins tókst honum ekki að ljúka síðustu þrautinni vegna skorts á nægum hraða inn í lokahluta þrautarinnar. Að sögn Jónars er snjórinn blautur og færið þungt, sem gerði það erfitt að ná nægu rennsli og þeim hraða sem nauðsynlegur er til að ná inn á og ljúka öllum þrautum af fullum krafti. „Ég fer núna að hugsa um næstu keppni og gera mig klára fyrir hana, það þýðir ekki að svekkja sig, áfram gakk“ segir Jónar léttur í bragði.
Jónar hefur sýnt að hann á fullt erindi í sterkar alþjóðlegar keppnir. Hann er ungur að árum, fæddur 2009, og vinnur markvisst og af miklum metnaði að því að ná langt í skíðafimi. Ljóst er að við eigum eftir að sjá meira af honum á næstu árum.
Næsta stórkeppni sem bíður hans fer fram strax næstu helgi, þegar Norges mesterskapet, norska landsmótið sem er FIS-mót, fer fram í Myrkdalen í Voss. Þar mætir Jónar til leiks tvíefldur með dýrmæta reynslu í farteskinu.
Ef veður leyfir og aðstæður verða hagstæðar, er einnig von á að Jónar taki þátt í Snjóbrettamóti Íslands sem fyrirhugað er á Akureyri dagana 3.–4. maí – mót sem íslenskir skíða- og snjóbrettaaðdáendur ættu að fylgjast vel með.
Við óskum Jóni Grímssyni innilega góðs gengis í komandi keppnum – áfram Jónar og áfram Ísland!