Íþróttamælingar í samstarfi við HR

Georg Fannar Þórðarson - lansliðsmaður í alpagreinum spreytir sig á einu prófanna í dag.
Georg Fannar Þórðarson - lansliðsmaður í alpagreinum spreytir sig á einu prófanna í dag.

Í dag fóru fram íþróttamælingar, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, fyrir landslið SKÍ í öllum keppnisgreinum.

Í mælingum þessum er landsliðsfólk SKÍ látið gera fyrirfram ákveðnar æfingar og próf sem teljast henta hverri grein fyrir sig.  Æfingarnar reyna á alla líkamsþætti íþróttanna, s.s. liðleika, jafnvægi, þol, styrk og snerpu.  Útkoman gefur svo keppendunum sjálfum, þjálfurum þeirra og SKÍ góða mynd af líkamlegum styrkleikum og/eða veikleikum þeirra.

Stefnt er að því að allt landsliðsfólk okkar fari í þessar mælingar 2-3 sinnum á hverju ári.  Þannig sjáum við vel þróunina hjá hverjum keppanda og þá hvaða þætti ætti að leggja meiri áherslu á við framtíða þjálfun þeirra.  Einnig getur verið mjög fróðlegt að bera útkomurnar á okkar fólki saman við samskonar mælingar sem gerðar hafa verið á íþróttafólki á heimsmælikvarða í viðkomandi greinum.

Mælingin í dag fór fram í Laugardalshöll og var þetta í annað skiptið sem mæling fer fram í samstarfi SKÍ við íþróttafræðideild HR, en gerður var tveggja ára samstarfssamningur um það nú í haust.  Næsta mæling mun svo fara fram að keppnistímabilinu loknu, eða í byrjun maí 2020.