Hólmfríður Dóra tvívegis á palli í Suður-Ameríkubikarnum

Frábær árangur hjá Hólmfríði Dóru í Suður-Ameríkubikarnum

Landsliðskonan okkar í alpagreinum, Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, tók í gær þátt í tveimur risasvigsmótum í Suður-Ameríkubikarnum í Corralco í Chile í gær og stóð sig frábærlega. Hún hafnaði í 2. sæti í báðum keppnum.

Í fyrra mótinu var Hólmfríður aðeins 0,51 sekúndu á eftir sigurvegaranum, Rosa Pohjolainen frá Finnlandi, og fékk fyrir það 36,72 FIS-punkta. Í síðara mótinu munaði svo aðeins 0,01 sekúndu á henni og sigurvegaranum, Tricia Mangan frá Bandaríkjunum.

Þetta er besti árangur Hólmfríðar í risasvigi frá upphafi, og gaman er að segja frá því að hún skákaði þar tveimur skíðakonum sem tilheyra sjálfu heimsbikarliði Bandaríkjanna.

Árangurinn er jafnframt sá besti sem hún hefur náð til þessa á alþjóðlegum vettvangi í risasvigi og staðfestir að hún er á réttri leið í undirbúningi sínum fyrir komandi vetur og ekki síst Ólympíuleikana sem fram fara í Cortina á Ítalíu í febrúar.

Hólmfríður hefur undanfarnar vikur verið við æfingar í Chile og heldur keppnistörninni áfram í dag þegar hún tekur þátt í bruni í Suður-Ameríkubikarnum.

Skíðasamband Íslands óskar Hólmfríði innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og óskar henni áframhaldandi góðs gengis.