Hólmfríður Dóra gerði sér lítið fyrir og vann Suður-Ameríkubikarinn í bruni og risasvigi
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, eða Hófí Dóra eins og hún er jafnan kölluð, stóð uppi sem sigurvegari í samanlagðri keppni Suður-Ameríkubikarsins í bruni og risasvigi eftir glæsilegan árangur í fjórum brunmótum og þremur risasvigmótum.
Mótaröðin fór fram La Parva og Corralco í Chile en Hólmfríður Dóra var í topp 4 á öllum sjö mótunum. Hún vann til þriggja silfurverðlauna og eins bronsverðlauna, auk þess náði hún að bæta FIS punktana sína sem um munar í risasvigi og mun því færast töluvert upp heimslistann.
Hófí Dóra hafði þetta að segja þegar við náðum tali af henni í morgun:
"Ég er ótrúlega ánægð með úrslitin og þetta gefur mér mikið sjálfstraust inn í stórt keppnistímabil sem er framundan. Ég var alveg búin að setja mér háleit markmið fyrir mótaseríuna en gerði ekki endilega ráð fyrir að ná þessu þannig þetta kom nokkuð á óvart. Með þessu fæ ég bæði betra start í Evrópubikarnum og stekk töluvert upp heimslistann í risasvigi, lítur út fyrir að ég komist loksins í topp 100"
Að sögn Hófíar Dóru voru aðstæður til fyrirmyndar á öllum mótunum, bæði hvað varðar brautir og skipulag
Skíðasamband Íslands óskar Hólmfríði Dóru innilega til hamingju með glæsilegan árangur.