Hólmfríður Dóra með silfur og brons í bruni í Suður-Ameríkubikarnum

Hólmfríður Dóra á verðlaunapalli í báðum brunkeppnum í Chile

Landsliðskonan í alpagreinum Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir gerði sér lítið fyrir og náð á pall í báðum brunkeppnum Suður-Ameríkubikarsins í Corralco í Chile, sem fóru fram í gær og í dag.

Í gær, 30. september, skíðaði Hólmfríður Dóra af miklu öryggi og hafnaði í 2. sæti á tímanum 1:08,67 eða +0.81 á eftir sigurveigaranum Rosa Pohjolainen frá Finnlandi. Allison Mollin frá Bandaríkjunum var í 3.sæti, +0,88 á eftir. 

Í dag, 1. október, tryggði Hólmfríður Dóra sér 3. sætið með tímanum 1:07,56. Aðeins +0,52 sekúndur skildu hana frá sigurvegaranum, Rosu Pohjolainen frá Finnlandi, en Allison Mollin varð önnur, +0,11 frá 1. sætinu. 

Árangurinn í Corralco undirstrikar að Hólmfríður er í frábæru formi og leiðir Suður-Ameríkubikarinn í bruni og risasvigi. Það verður gaman að fylgjast með henni keppa við sterkustu konur í heiminum í vetur. 

Skíðasamband Íslands óskar Hólmfríði Dóru innilega til hamingju með árangurinn.