HM í Oberstdorf - Flottur liðasprettur hjá íslensku körlunum

Snorri Einarsson á fullri ferð í einum af sínum sprettum í dag
Snorri Einarsson á fullri ferð í einum af sínum sprettum í dag

Keppni dagsins í Oberstdorf var liðasprettur og var eitt íslenskt karlalið skráð til leiks. Þeir Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson mynduðu liðið og hófu leik í undanúrslitariðli B ásamt 17 öðrum þjóðum. Liðaspretturinn virkar þannig að genginn er hefðbundinn spretthringur nema að hvor keppandi fer þrjá hringi, alltaf einn í einu og því samtals sex hringir. Snorri Einarsson hóf leik og Isak Stianson Pedersen tók því seinni sprettina og því lokasprettinn.

Íslenska liðið gekk mjög vel framan af og þegar fimm hringir af alls sex voru búnir var liðið í 8.sæti og einungis um 9 sekúndum á eftir efsta liðinu. Lokaspretturinn hjá Isak gekk því miður ekki sem skildi en fyrri sprettir höfðu tekið mikið af tanknum og því lítið eftir í lokin. Að lokum fór svo að íslensla liðið endaði í 14.sæti og komst því ekki áfram í aðalkeppnina. 

Fyrir íslenska liðið að vera í hópi fremstu þjóða í riðlinum á síðasta spretti er eitt og sér frábær árangur. Þessi úrslit munu kláralega gefa öllu liðinu sjálfstraust fyrir komandi keppnir á mótinu.

Heildarúrslit má sjá hér.

Næsta keppni hjá íslensku keppendunum er 10 km F hjá konum á þriðjudaginn en þar mun Gígja Björnsdóttir taka þátt eftir að hafa unnið sér inn þátttökurétt í gegnum undankeppnina. Þeir Albert Jónsson og Snorri Einarsson munu svo taka þátt í 15 km F á miðvikudaginn 3.mars.