HM í Cortina - Sturla Snær í 4.sæti í undankeppni í svigi

Sturla Snær Snorrason eftir keppni dagsins
Sturla Snær Snorrason eftir keppni dagsins

Rétt í þessu var að klárast undankeppni karla í svigi á HM í alpagreinum í Cortina, Ítalíu. Fjórir íslenskir karlar voru meðal keppenda en alls voru 112 keppendur sem hófu leik í undankeppninni. Rásnúmer voru eftirfarandi: Sturla Snær Snorrason 7, Bjarki Guðmundsson 53, Georg Fannar Þórðarson 60 og Gauti Guðmundsson 71.

Sturla Snær átti frábæra fyrri ferð og var í 2.sæti að henni lokinni. Í þeirri seinni lenti hann í smá veseni þegar hann missti aðra legghlífina á miðri leið en það kom ekki að mikilli sök því hann endaði í 4.sæti og var einungis 65/100 úr sekúndu á eftir fyrsta manni. Minnsti mögulegi munur var í 3.sætið, eða verðlaunasæti, en það var 1/100 úr sekúndu.

Gauti Gauðmundsson endaði í 31.sæti og var því ekki langt frá því að komast áfram en 25 efstu komust í aðalkeppnina. Gauti gerði mistök neðarlega í brautinni í fyrri ferðinni og var í 39.sæti eftir hana en seinni ferðin var góð og náði hann að vinna sig upp um átta sæti.

Þeir Bjarki Guðmundsson og Georg Fannar Þórðarson náðu ekki að ljúka fyrri ferð.

Heildarúrslit má sjá hér.

Á morgun fer fram síðasta keppnisgreinin á HM í alpagreinum og er það aðalkeppnin í svigi karla. Sturla Snær Snorrason verður eini íslenski keppandi þar en seinni í dag kemur í ljós rásnúmer hjá honum, en gera má ráð fyrir því að það verði um 60.