Hilmar Snær tekur þátt í Paralympics

Vetrar-Paralympics voru settir formlega við hátíðlega athöfn í PyeongChang 9.mars síðastliðinn. Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson úr Víkingi var fánaberi Íslands við athöfnina en hann er jafnframt eini keppandi Íslands á leikunum. Metfjöldi íþróttamanna tók þátt í opnunarhátíðinni, eða 567 íþróttamenn frá 48 löndum.

Hilmar er fjórði Íslendingurinn sem keppir á Vetrar-Paralympics og líka sá yngsti eða sautján ára gamall. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) gerir ráð fyrir því að þessir Vetrar-Paralympics verði þeir stærstu og útbreiddustu í sögunni en metsala var á sýningarrétti mótsins og metskráning fjölmiðla við leikana.

Á morgun 14. mars (laust eftir miðnætti í dag að íslenskum tíma kl. 00:25) hefst keppni hjá Hilmari Snæ Örvarssyni á Vetrar-Paralympics í PyeongChang í Kóreu. Vegna aðstæðna hefur mótsstjórn ákveðið að snúa við dagskránni í alpagreinum en upphaflega stóð til að Hilmar myndi keppa í svigi 14. mars en nú keppir hann í stórsvigi fyrst (14. mars) og síðan í svigi þann 17. mars.

RÚV sýnir beint frá keppni Hilmars í nótt, útsending frá fyrri ferðinni hefst kl. 00:25 og síðari ferðin hefst kl. 04:55 að íslenskum tíma.