Skíðasamband Íslands hefur gert samning við Hauk Þór Bjarnason um að taka við stöðu landsliðsþjálfara í alpagreinum. Haukur hefur áratugareynslu af afreksþjálfun og hefur starfað fyrir skíðasambönd Íslands, Noregs og Svíþjóðar auk Norges Toppodrettsgymnas (NTG) í Geilo, þar sem hann gegndi stöðu íþróttastjóra alpagreina síðustu sex ár.
Hann hefur komið að þjálfun keppenda sem náð hafa verðlaunasætum á heimsbikarmótum (WC), evrópubikarmótum (EC) og heimsmeistaramótum unglinga (JWSC). Meðal íslenskra íþróttamanna sem Haukur hefur þjálfað eru Kristinn Björnsson og Dagný Linda Kristjánsdóttir.
Ferill Hauks í stuttu máli:
Marko Spoljaric, sem gegndi stöðu landsliðsþjálfara síðasta vetur mun starfa áfram sem landsliðsþjálfari við hlið Hauks. Marko náði mjög góðum árangri með íslenska landsliðið síðasta keppnistímabil og verður áfram mikilvægur hlekkur í þjálfarateyminu.
„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Hauk til liðs við okkur. Hann hefur mikla reynslu á alþjóðavettvangi og góðan skilning á þjálfun afreksíþróttafólks. Með Marko við hliðina á honum teljum við að við séum með öflugt teymi til að styðja við áframhaldandi framför íslenskra keppenda í alpagreinum,“ segir Brynja Þorsteinsdóttir, afreksstjóri Skíðasambands Íslands.
Sjálfur er Haukur spenntur fyrir nýju hlutverki: „Ég hlakka til að vinna með metnaðarfullum íþróttamönnum og stuðla að því að Ísland nái enn frekari árangri í alpagreinum á komandi árum.“
Skíðasamband Íslands býður Hauk Þór innilega velkominn til starfa.