Anna Kamilla Hlynsdóttir í 17. sæti í heimsbikarnum í nótt

Anna Kamilla og Arnór Dagur kepptu á heimsbikarmóti í Big Air

Landsliðsfólkið okkar í snjóbrettum, Anna Kamilla og Arnór Dagur, tóku þátt í heimsbikarmóti FIS í Big Air í Secret Garden í Kína í nótt. Keppt var í one-direction fyrirkomulagi, þar sem betra stökkið telst, og var mótið afar sterkt skipað.

Góð frumraun hjá Önnu Kamillu

Þetta var fyrsta heimsbikarkeppni Önnu Kamillu, og stóð hún sig mjög vel. Hún lenti báðum stökkum sínum, bæði frontside 1080°, þar sem seinna stökkið var með góðum grab og öruggri lendingu sem skilaði henni betri einkunn.

Fyrir frammistöðuna hlaut hún 14 stig á Ólympíulistann, sem telst frábær árangur í hennar fyrsta heimsbikarmóti og sterkt skref inn í veturinn.

Úrslit kvenna má finna 👉 hér

Skíðasambandið náði tali af Önnu Kamillu eftir mótið í dag og þetta hafði hún að segja:

„Þetta var ótrúleg upplifun. Að standa í fyrsta skipti á stóra sviðinu var stórt skref fyrir mig og ég er stolt af því að hafa náð að lenda báðum stökkunum. Ég fann alveg stressið, en líka spennuna og gleðina. Ég tek með mér fullt af dýrmætri reynslu og er mjög peppuð fyrir framhaldið.“

Með frammistöðu líkt og í dag má með sanni segja að Anna Kamilla sé í fremstu röð íslenskra snjóbrettakvenna frá upphafi.

Arnór Dagur náði ekki sínum bestu tilburðum

Arnór Dagur átti ekki sinn besta dag að þessu sinni og tókst honum því miður ekki að lenda stökkunum sínum. Þetta var jafnframt fyrsta heimsbikarkeppni hans, sem gerir reynsluna enn dýrmætari. Hann hefur verið á góðri siglingu undanfarið og mun þessi reynsla styrkja hann fyrir komandi verkefni vetrarins.

Úrslit karla má finna 👉 hér

Mikilvæg reynsla fyrir framhaldið

Skíðasamband Íslands er afar stolt af Önnu Kamillu og Arnóri, sem stigu bæði stór skref á stóra sviðinu í dag. Heimsbikarmót af þessu kalíberi gefa ómetanlega reynslu og styrkja þau fyrir verkefnin sem bíða fram undan, framtíðin lítur mjög vel út