Landsliðsstrákarnir í alpagreinum og skíðagöngulandsliðið voru að keppa á alþjóðlegum FIS-mótum á Ítalíu og í Svíþjóð undanfarna daga og áttu afar góðan dag í gær og í dag.
Bjarni Þór bar af í stórsvigi á National Junior Race, var með besta tímann í báðum ferðum og tryggði sér yfirburða sigur. Þetta var besta stórsvigsmót Bjarna á ferlinum, og með árangrinum styrkir hann stöðu sína á heimslista. Með þessum frábæra árangri fékk Bjarni einnig dýrmæt Ólympíustig.
Matthías fylgdi fast á eftir og endaði í 2. sæti, sem styrkir einnig stöðu hans á heimslista og bætir við Ólympíustigum.
„Það var mjög gaman að ná sigrinum í dag. Líka mjög cool að deila pallinum með liðsfélaga,“ sagði Bjarni eftir keppnina.
Gauti Guðmundsson tók þátt í National Championship í stórsvigi í gær og endaði í 11. sæti. Með þeim árangri gerði Gauti sín bestu stórsvigspunkta á ferlinum og tryggði sér einnig dýrmæt Ólympíustig. Jón Erik Sigurðsson náði ekki að klára seinni ferðina eftir að hafa verið í 34. sæti eftir þá fyrri og Tobias Hansen varð út leik í fyrri ferðinni.
Í dag kepptu Jón Erik, Tobias og Pétur Reiðar í svigi í Kronplatz, en því miður náði enginn þeirra að ljúka fyrri ferðinni að þessu sinni.
Í skíðagöngu var Kristrún Guðnadóttir, ásamt landsliðsstrákunum Einari Árna og Ástmari Helga, í Falun í Svíþjóð í gær og í dag. Í gær endaði Kristrún í 44. sæti í 10 km klassískri göngu, en í dag náði hún mjög góðum árangri í sprettgöngu, þar sem hún komst áfram í kvartúrslit og hafnaði að lokum í 18. sæti, sem telst frábær árangur. Einar Árni og Ástmar Helgi stóðu sig einnig vel á mótinu og halda áfram að bæta sig og sýna stöðuleika, sem lofar góðu fyrir komandi keppnir. Þeir munu ásamt Kristrúnu Guðnadóttur keppa á morgun í 10 km frjálsri göngu, og það verður spennandi að fylgjast með þeim.
Keppnistímabilið er á afar viðkvæmum tímapunkti þar sem hvert mót og hvert stig skiptir miklu máli í baráttunni um þátttökurétt á Ólympíuleikunum.
Skíðasambandið óskar Bjarna Þór, Matthíasi og Gauta til hamingju með árangurinn.

