Glæsileg ganga hjá Snorra - 28.sæti í Oberstdorf

Snorri Einarsson í Oberstdorf í dag. Mynd: NordicFocus
Snorri Einarsson í Oberstdorf í dag. Mynd: NordicFocus

Snorri Einarsson hélt áfram keppni í Tour de Ski í dag þegar fyrsta keppni í Oberstdorf, Þýskalandi, fór fram. Keppni dagsins var 15 km ganga með frjálsri aðferð og hópræsingu en Snorri hóf leik nr. 64 í rásröðinni en ræst var út eftir árangri í fyrsta hluta mótaraðarinnar í Lenzerheide. 

Snorri hóf gönguna rólega og var meðal síðustu manna eftir um 5 km en og eftir 11,3 km var hann í 46.sæti. Frábær lokakafli skilaði Snorra í 28.sæti sem er hans besti árangur á tímabilinu og hans fyrstu heimsbikarstig, en þau fást einungis fyrir 30 efstu sætin. Fyrir úrsltin fékk Snorri einnig 39.70 FIS stig og mun það koma honum framar á heimslista FIS.

Úrslit dagsins má sjá hér.

Snorri hefur lokið keppni í Tour de Ski mótaröðinni þetta árið en hann mun halda heim til Íslands á morgun og halda áfram æfingum. Næst keppir Snorri í heimsbikar í Frakklandi um miðjan janúar og svo tekur við ÓL í Peking 2022 sem hefst í byrjun febrúar.