Góður árangur alpagreinalandsliðs karla í Austurríki
Alpagreinalandslið karla átti afar góða keppnisdaga í Austurríki þar sem liðið keppti í alls fjórum mótum, tveimur stórsvigsmótum í gær og tveimur svigmótum í dag.
Í gær kepptu Bjarni Þór, Matthías, Tobias og Pétur Reidar í tveimur stórsvigsmótum í Glungeze–Tulfes.
Í fyrra mótinu náði Bjarni Þór glæsilegu bronsverðlaunasæti, á meðan Matthías endaði í 4. sæti. Pétur Reidar varð 13.sæti og Tobias 15.sæti
Í seinna stórsvigsmótinu var Bjarni Þór með annan besta tímann eftir fyrri ferð, en gerði því miður stór mistök í seinni ferð og endaði í 14. sæti. Matthías varð 6., Tobias 8. og Pétur Reidar 13.
Í dag hélt landsliðið áfram keppni í Telfs Seewaldalm, þar sem keppt var í tveimur svigmótum.
Í fyrra svigmótinu varð tvöfaldur sigur þegar Gauti og Matthías deildu 1. sætinu. Gauti bætti þar með FIS-punktana sína og stöðu á heimslista, en Matthías var þó með betri FIS-punkta fyrir mótið. Tobias Hansen endaði í 14. sæti. Jón Erik lauk ekki fyrri ferðinni og Pétur Reidar lauk ekki þeirri seinni.
Í seinna svigmótinu náði Gauti silfurverðlaunum og bætti enn frekar stöðu sína á heimslista. Jón Erik endaði í 9. sæti, Tobias í 12. sæti og Pétur Reidar í 20. sæti.
Bjarni Þór tók ekki þátt í svigmótunum og Matthías keppti ekki í seinna svigmótinu.
Matthías var að vonum ánægður með daginn og sagði eftir keppni:
„Það er gaman að vera tveir efst á verðlaunapallinum, allavega með liðsfélaga sem maður er með á hverjum degi. Ég hlakka til kvöldsins 😉“
Gauti var einnig sáttur við árangurinn og bætti við:
„Það var frábært að fagna sigrinum með liðsfélaganum og ég er nokkuð viss um að þetta hafi aldrei gerst áður hjá Íslendingum erlendis. Það gekk vel í seinna mótinu og mátti litlu muna að ég tæki sigurinn þar líka. Fyrir mig var þetta sérstaklega gott fyrir hausinn, að ná svona árangri stuttu eftir þau vonbrigði sem það voru að komast ekki á Ólympíuleikana.“
Það er ljóst að alpagreinalandslið karla er á mikilli siglingu þessa dagana og afar ánægjulegt að fylgjast með þeim sterka árangri sem liðið er að ná á alþjóðlegum vettvangi.
Skíðasambandið óskar Bjarna Þór, Gauta og Matthíasi innilega til hamingju með árangurinn.
Úrslit mótanna má sjá hér:


