Gauti Guðmundsson með sigur í Svíþjóð og besta árangur ferilsins

Gauti með besta árangur ferilsins í Storklinten og Matthías bætti FIS punktana sína

Karla landslið alpagreina stóð sig afar vel á FIS-móti í svigi í Storklinten í Svíþjóð og náði þar sínum sterkasta samanlagða árangri á tímabilinu.

Sterk staða eftir fyrri ferð

Eftir fyrri ferð voru Gauti Guðmundsson og Matthías Kristinsson báðir í baráttu um efstu sætin.
Gauti var þá með þriðja besta tímann og Matthías þann sjötta, sem skapaði liðinu frábæra stöðu fyrir seinni ferðina. Pétur Reidar Pétursson, sem var með rásnúmer 57, átti góða ferð og var í 33. sæti eftir fyrri ferð. Jón Erik Sigurðsson náði því miður ekki að klára fyrri ferðina.

Gauti með besta brautartímann í seinni ferð

Í seinni ferðinni náði Gauti svo enn frekari hæðum, skíðaði hraðast allra og tryggði sér sigur í mótinu. Þetta var fyrsti sigur Gauta í FIS móti á erlendri grundu og jafnframt hans besti árangur til þessa þar sem hann gerði sína bestu FIS-punkta á ferlinum, 23, sem bætir stöðu hans á heimslistanum. Þess má geta að Gauti hefur áður unnið FIS-keppni á Ítalíu, en það mót var í junior-flokki og því vegur þessi árangur enn þyngra.

Skíðasambandið náði tali af Gauta eftir sigurinn og hann var afar sáttur með frammistöðuna:

"Frábært að ná fyrsta sigrinum í FIS móti og fá 23 puntka. Færið og brautirnar voru krefjandi en ég náði að skíða þær mjög vel og er sáttur með það".

Matthías átti góða seinni ferð sem skilaði fimmta besta tíma seinni ferðar, sem tryggði honum 5. sætið heildina. Hann náði jafnframt FIS-punktabætingu, sem styrkir stöðu hans á heimslitanum. 

Pétur Reidar lauk því miður ekki seinni ferðinni, en fyrri ferðin hans sýndi að hann er á réttri leið og verður mikilvægur liður í uppbyggingu vetrarins.

Sjá úrslit hér

Skíðasambandið óskar Gauta og Matthíasi innilega til hamingju með árangurinn.