Gauti Guðmundsson í 3. sæti á alþjóðlegu svig móti í Austurríki

Gauti Guðmundsson með frábæra byrjun á nýju ári.

Í dag keppti alpagreinalandsliðið í Telfs Seewaldalm í Austurríki, þar sem Gauti gerði sér lítið fyrir og hafnaði í 3. sæti eftir glæsilegt mót. Gauti var í 8. sæti eftir fyrri ferðina 1,77 sek á eftir fyrsta manni. Gauti skipti hins vegar um gír í seinni ferðinni og var hreint út sagt frábær. Árangurinn skilaði honum 3. sætinu, en hann endaði 0,94 sek á eftir sigurvegaranum Alexander Schmid og Fabian Gratz sem var í öðru sæti. Fabian Gratz er okkur kunnugur en hann tók 5. sætið í heimsbikarnum í Alta Badia nú rétt fyrir jól í stórsvigi. Bæði hann og Alexander eiga best 5. sæti í heimsbikarnum. Mótið skilaði Gauta 29.91 FIS stigum og bætir stöðu hans enn frekar á Ólympíulistanum. 

Við náðum tali af Gauta: „Ég er mjög sáttur og ánægður að byrja árið á verðlaunapalli en það er nóg af mótum fram undan og til mikils að vinna.“

Bjarni Þór Hauksson átti einnig flott mót en hann endaði í 9. sæti, 1.38 sek á eftir sigurvegaranum, sem skilaði honum 33.15 FIS stigum. Þá endaði Tobias Hansen í 26. sæti í keppni dagsins. Jón Erik náði því miður ekki að klára mótið og féll úr leik í fyrstu ferð. 

Úrslit má finna hér.

Skíðasambandið óskar Gauta og strákunum innilega til hamingju með árangurinn.