Fyrsti keppnisdagur á HM í Courchevel/Meribel er að baki

Í dag var keppt í tveimur keppnisgreinum á heimsmeistaramótinu í Frakklandi og átti íslenska landsliðið þátttakendur í báðum greinum. Katla Björg keppti í aðalkeppni í stórsvigi kvenna á meðan Gauti og Jón Erik kepptu í undankeppni í stórsvigi karla.

Katla Björg sem var með rásnúmer 68 náði ekki að klára fyrri ferð í morgun en henni hlekktist á neðarlega í brautinni. Næsta keppni hjá Kötlu Björgu fer fram á laugardaginn þegar hún keppir í svigi.

Í undankeppni karla komust einungis 25 bestu keppendur beint áfram í aðalkeppnina. Því miður heppnaðist það ekki hjá strákunum okkar en Gauti endaði í 32. sæti og Jón Erik í 38. sæti.

Ísland mun þó eiga keppanda á morgun þar sem íslenska landsliðinu hafði verið úthlutað einu öruggu sæti í aðalkeppninni í stórsvigi karla. Gauti mun því keppa fyrir Íslands hönd og mun RÚV vera með beina útsendingu frá keppninni kl. 08:50 (ísl). Gauti er með rásnúmer 78. Úrslit og lifandi tímatöku má finna hér.