Freydís Halla leggur keppnisskíðin á hilluna

Freydís Halla á HM í Åre 2019
Freydís Halla á HM í Åre 2019

Freydís Halla Einarsdóttir, lansdliðskona í alpagreinum úr Ármanni, hefur ákveðið að leggja keppnisskíðin á hilluna í bili.  Freydís, sem hefur verið við nám í Bandaríkjunum undanfarin ár, stefnir á enn frekara nám eða störf erlendis núna í haust.

"Eftir mikla umhugsun hef ég ákveðið að leggja keppnisskíðin á hilluna í bili.  Nú í vor er ég að útskrifast úr háskóla og það tekur við nýr kafli hjá mér. Ég er búin að eiga eftirminnilegan feril og er virkilega ánægð með það sem ég hef náð að afreka á þessum árum.  Á meðan ég æfði og keppti fékk ég að ferðast víða og upplifa hluti sem ég hefði annars aldrei fengið tækifæri til.  Ég hef kynnst yndislegu skíðafólki frá öllum heimsálfum, tekist á við ókunnugar aðstæður og nýja menningarheima.  Ég er virkilega þakklát fyrir allt sem ég hef fengið að upplifa á meðan ég sinnti skíðaíþróttinni, og veit að sú reynsla mun hjálpa mér að takast á við nýjar áskoranir. 

"Ég vil þakka SKÍ fyrir samstarfið, sem og öllum styrkaraðilum sem hafa stutt við mig gegnum árin.  Þessi stuðningur er ómetanlegur og hefur hjálpað mikið.  Ég vil einnig koma þakklæti til allra þjálfara, liðsfélaga, vina og annarra sem hafa haft endalaus áhrif á mig bæði sem persónu og íþróttakonu.  Ég hlakka til að vera áfram hluti af skíðahreyfingunni þrátt fyrir að keppnisskíðin verði ekki með í för!  Takk fyrir mig." 

Árangur Freydísar á ferlinum hefur verið frábær og hér má sjá það helsta:

  • Þrisvar sinnum Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í svig, árin 2014, 2016 og 2018. 
  • Tvisvar Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í stórsvigi 2016 og 2017.
  • Tvisvar sinnum Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í samhliðasvigi 2017 og 2018
  • Tók þátt á Ólympíuleikunum í Peyong Chang í Suður Kóreu 2018 og endaði í 41. sæti 
  • Tók fjórum sinnum þátt á HM: 2013 í Schladming, 2015 í Vail/Beaver Creek, 2017 í St. Moritz og loks 2019 í Åre.
  • Var í 2. sæti á HM unglinga 2011 í flokki 16-17 ára í Crans Montana.
  • 6 sigrar á alþjóðlegum FIS mótum erlendis og 19 sinnum í verðlaunasæti.
  • Þrisvar sinnum meðal 15 efstu í Norður Ameríkubikar og þar af einu sinni í 6. sæti.
  • Hennar besti árangur í svigi var í janúar 2017 þegar hún náði 3. sæti á háskólamóti í Whiteface Mountain í Bandaríkjunum.  Fyrir þann árangur hlaut 22,89 FIS stig og var þá komin í 165.sæti heimslistans í svigi eftir mótið. 
  • Í stórsvigi náði Freydís besta árangri þegar hún varð í 9. sæti í undankeppni Heimsmeistaramótsins í St. Moritz 2017 og hlaut fyrir það 31.15 FIS stig.  Hæst náði hún að vera í 390. sæti á heimslistanum í stórsviginu.

Skíðasamband Íslands óskar Freydísi Höllu alls velfarnaðar í framtíðinni og þakkar um leið fyrir gott samstarf í gegnum árin.