FIS æfingabúðir í Argentínu og Chile, ný vináttubönd og dýrmæt reynsla

Alþjóða skíðasambandið (FIS) býður nokkrum sinnum á ári upp á sérstakar æfingabúðir fyrir ungt og efnilegt skíða- og brettafólk. Skíðasamband Íslands (SKÍ) fær tækifæri til að skrá einn strák og eina stelpu til þátttöku í þessum búðum, sem gefa ungu skíða- og brettafólki einstakt tækifæri til að vaxa bæði sem íþróttafólk og einstaklingar.

Alpagreinafólkið, Hrefna Lára Pálsdóttir Zoëga úr ÚÍA og Gísli Guðmundsson úr Ármanni,  héldu til Argentínu 11. júlí í þriggja vikna æfingaferð. Ætlunin var að stunda æfingar í El Bolsón, en fljótlega eftir komuna þangað kom í ljós að snjó skorti á svæðinu. Því var ákveðið að flytja æfingarnar yfir til Antillanca í Chile 18. júlí.

Dagana fram að brottför nýttu ferðalangarnir til að skoða náttúruperlur og dýralífi á svæðinu og fóru meðal annars í skemmtilega hestaferð. Ferðin yfir til Chile, sem átti að taka um fimm klukkustundir, varð að tólf klukkustunda ferð vegna tafar á landamærum, þar sem hópurinn taldi um 30 manns með mjög mikinn farangur. 

Í Chile fengu þau alls átta skíðadaga þar sem þau æfðu bæði svig og stórsvig undir handleiðslu reyndra þjálfara. Fimm daganna reyndust mjög góðir, en á síðustu dögunum setti breytilegt veður svip sinn á æfingarnar, allt frá púðursnjó yfir í úrhellisrigningu.

Hópurinn sneri aftur til Argentínu 29. júlí og nýttu þau síðustu dagana til samveru og skemmtunar með öðrum þátttakendum. Það sem stóð upp úr ferðinni voru félagskapurinn, samheldnin og ný vináttubönd sem mynduðust.