EYOF - Viðburðaríkur annar keppnisdagur

Það var nóg að gera hjá íslenska hópnum á EYOWF í Vuokatti í Finnlandi í gær. Keppt var í þremur greinum, svigi, Big Air og 7,5 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð.

Björn Davíðsson, Jón Erik Sigurðsson, Kristmundur Ómar Ingvason og Pétur Reidar Kolsöe Pétursson kepptu í svigi karla. Pétur Reidar Pétursson lauk keppni í 51. sæti en Björn, Jón Erik og Kristmundur náðu ekki að ljúka keppni. Aðstæður voru frábærar í morgun eftir frost næturinnar og færið í brautinni hélst gott út alla keppnina.

Aðalheiður Dís Stefánsdóttir, Arnór Dagur Þóroddsson, Bjartur Snær Jónsson, Einar Ágúst Ásmundsson og Stefán Jón Ólafsson kepptu í Big Air á snjóbretti. Í Big Air fara keppendur tvær ferðir og stökkva á stórum stökkpalli og gildir stiga hærra stökkið. Stökkpallurinn var gríðarlega stór og flottur og er töluvert meiri áskorun að stökkva á þeim palli heldur en þeim sem notaðir eru til keppni á Íslandi. Aðalheiður var fyrst Íslendinganna til þess að stökkva, hún stóð sig vel og hafnaði í 12. sæti. Arnór Dagur reyndi við gríðarlega erfitt stökk en féll í lendingunni sem lækkaði stigagjöfina. Gott fyrsta stökk Bjarts Snæs skilaði honum í 15. sæti, Einar Ágúst féll í báðum sínum stökkum enda með hátt erfiðleika stig, en gerði engu að síður vel og vantaði lítið upp á. Stefán Jón átti tvö góð stökk og hafnaði í 18. sæti.

Annan daginn í röð kepptu Einar Árni Gíslason, Ólafur Pétur Eyþórsson, Sveinbjörn Orri Heimisson og Ævar Freyr Valbjörnsson í skíðagöngu. Gengu 7,5 km með hefðbundinni aðferð. Brautin var krefjandi og gerði blautur snjórinn það að verkum að færið í brautinni var erfitt. Ævar Freyr kom í mark á tímanum 25:08:05 sem skilaði honum 66. sæti, Einar Árni Gíslason hafnaði í 68. sæti á tímanum 25:52:05, Sveinbjörn Orri Heimisson var í 69. sæti á tímanum 26:45:00 og Ólafur Pétur Eyþórsson í 72. sæti á tímanum 27:59:50.

Eftir hádegi kepptu Guðbjörg Eva Guðmundsdóttir, Jóhanna Lilja Jónsdóttir, Karen Júlía Arnarsdóttir  og Signý Sveinbjörnsdóttir í svigi. Stelpurnar náðu allar að ljúka fyrri ferð en Karen hlekktist á í seinni ferðinni og náði ekki að ljúka keppni. Jóhanna Lilja Jónsdóttir hafnaði í 37. sæti, Signý Sveinbjörnsdóttir í 43. sæti og Guðbjörg Eva Guðmundsdóttir í 47. sæti.

Keppendur í alpagreinum taka ekki þátt í samhliðasvigi og keppni þeirra því lokið. Alpagreina hópurinn ferðast til Íslands á miðvikudaginn til að taka þátt í skíðamóti Íslands. 

Mikil ánægja var með daginn, stemningin góð og veðrið lék við keppendur. 

Dagskrá leikanna og streymiupplýsingar má finna hér.

Öll úrslit úr alpagreinum má sjá hér.

Öll úrslit úr skíðagöngu má sjá hér.