Dagur og Ástmar Helgi kepptu í liðaspretti á HM í dag

Í dag fór fram liðasprettur kvenna og karla á heimsmeistaramótinu í Þrándheimi.

Hvert lið skipa tveir keppendur frá sama landi og kyni og gengur hvor um sig tvo spretti. Þeir Dagur Benediktsson og Ástmar Helgi Kristinsson skipuðu lið Íslands, en þeir keppa báðir fyrir Skíðafélag Ísafjarðar. Það er venjulega þannig að betri skíðamaðurinn tekur sprett 2 og 4 og hinn 1 og 3. Dagur tók að þessu sinni sprett 1 og 3 og Ástmar sprett 2 og 4 þar sem Ástmar Helgi er meiri sprettmaður þó svo að Dagur sé ennþá sterkari skíðagöngumaður. Þeir stóðu sig mjög vel í dag og að sögn Vegards landsliðsþjálfara Íslands voru þetta bestu sprettgöngur þeirra á ferlinum. Þeir enduðu í 22. sæti +43.43 sek á eftir sigurliðinu frá Noregi, Johannes Høsflot Klæbo og Erik Valnes, en bara 15 bestu liðin komast áfram í úrslit.

Sjá úrslit hér

Nú hefur Ástmar Helgi lokið keppni á HM og má vera stoltur af sinni frammistöðu og fer heim reynslunni ríkari. Dagur hinsvegar mun taka þátt í 50 km með frjálsri aðferð á laugardaginn 8. mars, það verður spennandi að fylgjast með honum þar.