Dagur Benediktsson skíðagöngumaður

Dagur Benediktsson er fæddur 17. júní 1998. Hann flutti haustið 2018 til Östersund en býr nú í Åre í Svíþjóð þar sem hann æfir og keppir í skíðagöngu. Það átti snemma að gera skíðamann úr Degi eða fljótlega eftir að hann lærði að ganga. Eins og í skíðafjölskyldum þá fannst móður hans Stellu Hjaltadóttur tilvalið að setja skíði í jólapakkann þegar Dagur var einungis eins og hálfs árs. Fyrstu ferðirnar á skíðunum kölluðu fram meiri tár en gleði. Þrátt fyrir grenjur gafst mamman ekki upp og setti hann á skíðaæfingar um leið og þau fluttu aftur til Íslands frá Danmörku þegar hann var sex ára. Fyrstu skrefin voru tekin hjá Skíðafélagi Ísafjarðar þar sem Stella var þjálfari og hvatti hann óspart áfram. Dagur þótti einnig liðtækur bæði í fótbolta og handbolta en svo kom að því að gönguskíðin urðu fyrir valinu. Dagur er einn þeirra skíðagöngumanna sem stefnir á að ná lágmörkum fyrir vetrarólympíuleikana í Peking í Kína sem fara fram í febrúar 2022.

 Á síðasta keppnistímabili keppti hann á 23 alþjóðlegum skíðamótum þar á meðal á heimsmeistaramótinu í Oberstdorf í Þýskalandi. Dagur endaði 5 sinnum meðal 10 efstu manna á þessum erlendu mótum þar af 4 sinnum á verðlaunapalli.

 Dagur er með 118.68 FIS-punkta í DI og er númer 1138 á heimslista í þeirri grein. Þó svo Skíðasamband Íslands styðji Dag fjárhagslega sem A-landsliðsmann við að ná markmiðum sínum þá er hann einnig studdur dyggilega af fjölskyldu sinni og fyrirtækinu Seagold. Dagur gengur á Fischer skíðum og Fischer skóm en stafirnir eru frá Swix. Keppnisfatnaðurinn kemur frá noname, undirfatnaðurinn frá X-Bionic og hlífðarfatnaðurinn frá 66°Norður.