Dagur Benediktsson með besta árangur ferilsins

Skíðagöngulandsliðið byrjar tímabilið heldur betur sterkt

Skíðagöngulandsliðið átti frábæran dag á alþjóðlegum vettvangi þegar keppendur tóku þátt í sænskum og norskum bikarmótum. Stórbætingar, sterkar göngur og söguleg byrjun á tímabili settu tóninn fyrir það sem lofar góðu fyrir veturinn.

Dagur Benediktsson með stórgóða göngu í Svíþjóð

Dagur Benediktsson átti frábæran dag á sænska bikarmótinu í Boden, þar sem hann hafnaði í 24. sæti, aðeins +18,2 sekúndum frá sigurvegaranum.

Þetta er besti árangur Dags á erlendri grundu og jafnframt bestu FIS-punktar ferilsins, 62.62, sem mun færa hann töluvert ofar á heimslistanum. Dagur hefur keppt á nokkrum mótum undanfarið og hefur aldrei hafið tímabil jafn sterkt, sem undirstrikar góða uppbyggingu og vaxandi stöðugleika.

Skíðasambandið náði tali af Degi eftir keppnina og var hann að vonum sáttur:

"En það gekk vel í dag, planið var að vera sókndjarfur og sjá hvert það myndi leiða. Skíðin voru ágæt en ekki þau bestu sem gerir árangurinn í raun enn sætari."

Sjá úrslit hér

Öflugur hópur Íslendinga í norska bikarmótinu í Gålå

Á Norgescup mótinu í Gålå keppti stór hópur Íslendinga um helgina úr landsliði og afrekshópi SKÍ. Þar var Einar Árni Gíslason með mjög sterka göngu, ásamt Ástmari Helga Kristinssyni og Kristrúnu Guðnadóttur sem öll eru í landsliðinu. Með þeim kepptu einnig Ævar Freyr Valbjörnsson, Grétar Smári Samúelsson, Hjalti Böðvarsson og María Kristín Ólafsdóttir úr afrekshópnum. 

Sjá úrslit hér

Arna Sigríður Albertsdóttir eykur breiddina, stefnir á Cortina 2026

Einnig tók þátt Arna Sigríður Albertsdóttir, sem keppti í flokki hreyfihamlaðra og bætti þannig enn við breidd og kraft íslensku þátttakendanna í Gålå.

Arna er á afar mikilvægu tímabili þar sem hún stefnir að því að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikum fatlaðra í Cortina 2026. Keppnin í Gålå var því stór og mikilvægur liður í undirbúningi hennar.

Sjá úrslit hér

Skíðasambandið óskar Degi til hamingju með frábæran árangur.