Dagur Benediktsson landsliðsmaður og margfaldur íslandsmeistar í skíðagöngu fór með sigur af hólmi í hálfmaraþoni Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í morgun eftir æsispennandi lokasprett í miðborg Reykjavíkur. Hann kom fyrstur í mark á tímanum 1:12:52 og hafði aðeins fjórar sekúndur á undan næsta manni.
Í sterkum hópi hlaupara náði Dagur að losa sig frá keppinautum þegar 4 km voru eftir af hlaupinu og tryggja sér sigur. Daníel Ágústsson fylgdi honum fast á hæla, aðeins fjórum sekúndum síðar, og skammt á eftir komu Jón Kristófer Sturluson, Tom Pavis og Kristján Svanur Eymundsson.
„Þetta er bara sæluvíma. Þetta fór langt fram úr öllum væntingum, þetta er eins og draumur,“ sagði Dagur eftir marklínuna, glaður og þreyttur í senn.
„Átti ekki alveg von á þessu, þó ég hafi alltaf haft trú. Hugsaði fyrirfram að ef ég næ að vera með í baráttunni eftir 15 km, þá ætti ég góðan séns. Við vorum fimm saman eftir 17 km. Ég gaf allt í botn eftir 17 km og náði smá forskoti, kannski svona 8 sekúndur. Síðan minnkaði það aðeins og hélst svo sem 4 sekúndur forskot í mark.“
Dagur er vel þekktur fyrir afrek sín í skíðagöngu en hefur nú sannað sig einnig sem öflugan hlaupara. Hann var klæddur í Vestratreyju og rifjaði upp að sveitungar hans frá Vestfjörðum hefðu einnig unnið stórsigur í Mjólkurbikarnum í fótbolta deginum áður.
„Æfingarnar í skíðagöngunni hjálpa klárlega til,“ sagði hann. „Þetta er frábær undirbúningur fyrir næsta markmið sem eru Ólympíuleikarnir á Ítalíu 2026.“
"Þetta hlaup er ótrúlega góð staðfesting fyrir mig að ég sé á réttri leið í æfingum og hvetjandi fyrir framhaldið" sagði Dagur að lokum.
Skíðasambandið óskar Degi, Einari Árna og Grétari Smár innilega til hamingju með frábæran árangur í dag.