Dagur Benediktsson keppir í sínum fyrsta heimsbikar á morgun

Stór stund fyrir íslenska skíðagöngu þegar Dagur Benediktsson mætir á sinn fyrsta heimsbikar í Þrándheimi

Á morgun skrifar íslensk skíðasaga nýjan kafla þegar Dagur Benediktsson stígur á ráslínu í sínu fyrsta heimsbikarmóti í skíðagöngu, sem fram fer í Þrándheimi í Noregi. Þetta er stór stund fyrir Ísland, þar sem fáir Íslendingar hafa áður keppt á þessu hæsta stigi í greininni.

Dagur, sem er 27 ára og uppalinn á Ísafirði, hefur lagt hart að sér undanfarin ár. Hann hefur verið í frábæru formi í upphafi tímabilsins og nýlega náð sínum besta árangri á erlendri grundu, þegar hann hafnaði í 24. sæti á sænsku bikarmóti í Boden, aðeins 18 sekúndum frá sigurvegaranum. Þessi frammistaða skilaði honum bestu FIS-punktum ferilsins og undirstrikar að hann er á hraðri leið upp heimslistann.

Skíðasambandið náði tali af Degi í undirbúningi fyrir mótið;

''Spenntur að keppa í fyrsta heimsbikarnum, ég kem mjög vel undirbúinn og í góðu standi. Þekki brautina vel, eftir að hafa keppt hérna á HM síðasta vetur. Mótið er gífurlega stekt og fjölmennt. Á morgun er planið að halda í fyrsta hóp til að byrja með og finna síðan mitt flæði. Nýta mér reynsluna og gefa allt í þetta.'' 

Að sögn Dags er keppnin í Þrándheimi ekki aðeins persónulegur áfangi heldur einnig mikilvæg fyrir íslenska skíðagöngu í heild. Með stöðugri uppbyggingu og aukinni þátttöku á alþjóðavettvangi sé ljóst að framtíð greinarinnar sé björt.

Dagur mætir til leiks á morgun, tilbúinn, einbeittur og með þjóðarstolt í hjartanu. Við erum öll á bak við hann. Áfram Ísland!

Dagskrá mótsins í Þrándheimi 6.–7. desember 2025

  • Laugardagur 6. desember:
    10:10 – 20 km skiptiganga (karlar)
    12:00 – 20 km skiptiganga (konur)
  • Sunnudagur 7. desember:
    08:30 – 10 km frjáls aðferð (konur)
    10:55 – 10 km frjáls aðferð (karlar)

Hægt að fylgjast með live timing hér og horfa í beinni hér