Búið er að draga út rásnúmer á HM í stórsvigi kvenna og karla

Nú eru farastjórafundir hér í Courchevel/Méribel búnir þar sem dregið var í rásröð keppenda í stórsvigi kvenna og karla sem fer fram á morgun 16. febrúar. Katla Björg Dagbjartsdóttir sem keppir í aðalkeppni kvenna startar númer 68 af alls 114 keppendum. Keppnin hefst kl. 9:45 eða 8:45 að íslenskum tíma og verður sýnt beint frá henni á RÚV. Einnig er hægt að fylgjast með lifandi tímatöku á heimasíðu FIS og má finna útsendinguna hér. Katla Björg þarf að vera í topp 60 eftir fyrri ferðina til að komast áfram í þá seinni sem byrjar kl. 12:30 (ísl).

Gauti Guðmundsson og Jón Erik Sigurðsson keppa aftur á móti í undankeppni karla sem hefst kl. 10:00 eða 9:00 að íslenskum tíma. Gauti er með rásnúmerið 39 og Jón Erik með rásnúmerið 63 en það eru alls 107 keppendur sem taka þátt í undankeppninni. Það gilda sömu reglur um það hve margir komast í seinni ferðina og hjá konunum eða 60. Seinni ferðin hjá körlum hefst svo kl. 12:30 (ísl). Hægt verður að fylgjast með lifandi tímatöku á heimasíðu FIS með því að smella hér.