Bjarni Þór enn og aftur með sigur og Gauti í þriðja sæti á móti í Gaal í Austurríki

Frábær árangur íslenska alpagreinalandsliðsins í Gaal

Alpagreinalandslið Íslands keppti í dag á FIS-móti í stórsvigi í Gaal í Austurríki og náði þar framúrskarandi árangri. Bjarni Þór sigraði keppnina og Gauti hafnaði í þriðja sæti, sem undirstrikar þann mikla styrk sem ríkir í íslenska liðinu um þessar mundir.

Sigurinn í Gaal skilaði Bjarna Þór bestu FIS-punktum sem hann hefur náð á ferlinum í stórsvigi. Ár­angurinn styrkir stöðu hans verulega á heimslista FIS og skilar honum jafnframt afar dýrmætum Ólympíustigum sem geta skipt sköpum í baráttunni um sæti á Vetrarólympíuleikunum. Það er langt síðan íslenskur keppandi hefur skorað jafn góða FIS-punkta í stórsvigi. Þá er þetta þriðja stórsvigsmótið í röð sem Bjarni vinnur, en hann hefur sigrað í öllum síðustu þremur mótum sem hann hefur tekið þátt í.

„Geggjað að ná sigrinum hérna í Gaal. Það var gaman að geta sýnt góða skíðamennsku og í dag vorum við aftur tveir úr íslenska landsliðinu á pallinum, sem sýnir þann styrk sem býr í liðinu.“
Bjarni Þór

Gauti átti einnig frábært mót. Hann var í 6. sæti eftir fyrri ferðina en keyrði seinni ferðina af miklum krafti, náði þar næstbesta tíma og endaði í 3. sæti. Með þeim árangri fékk Gauti bestu stórsvigspunkta ferilsins, sem styrkir stöðu hans enn frekar á heims- og Ólympíulistanum.

Matthías endaði í 6. sæti eftir sterka seinni ferð þar sem hann keyrði sig upp um níu sæti og bætir hann einnig stöðu sína á heims- og Ólympíulistanum. Jón Erik bætti sig einnig verulega í seinni ferðinni, hann fór upp um fimm sæti og lauk keppni í 14. sæti. Tobias, sem var í 14. sæti eftir fyrri ferðina, endaði í 16. sæti. Pétur Reidar bætti sig um fjögur sæti í seinni ferðinni og hafnaði í 28. sæti.

Sjá úrslit hér

Það er ljóst að Ísland hefur ekki átt jafn sterkt landslið í alpagreinum í fjölda ára. Hörð keppni er um Ólympíusæti og verður afar spennandi að fylgjast með strákunum á næstu dögum.

Skíðasamband Íslands óskar landsliðsstrákunum til hamingju með árangurinn.