Benedikt Friðbjörnsson snjóbrettamaður

Benedikt Friðbjörnsson er fæddur 14. júní 2004 og er frá Akureyri. Hann hefur verið á snjóbretti frá því hann fékk fyrsta brettið í jólagjöf 6 ára gamall. Benedikt hafði verið á skíðum fram að því en fann um leið að brettið var eitthvað fyrir hann og æfði sig alla daga á bakvið skautahöllina á Akureyri. Árið eftir, þá aðeins 7 ára gamall, fékk hann boð um að fara til Meribel í Frakklandi að æfa á svokölluðum DC dögum. Þar eru margir keppendur saman komnir sem styrktir eru af fataframleiðandanum DC. Þar hitti Benedikt Torstein Horgmo frá Noregi sem átti eftir að vera hans helsta fyrirmynd um langa hríð. Í lok vikunnar vann hann svo mót sem varð til þess að DC fór að styrkja hann til áframhaldandi æfinga og keppni. Aðeins 12 ára gamall fór Benedikt til Austurríkis að æfa með snjóbrettaliðinu Why Ain’t you og hefur æft þar síðan. Hann keppti með liðinu á mörgum barnamótum og náði góðum árangri. Liðið er nú orðið samstarfsaðili Skíðasambands Íslands. Benedikt er einn þriggja íslensku snjóbrettamannanna sem keppir reglulega í World Cup og European Cup mótum

Benedikt reynir við lágmörk fyrir vetrarólympíuleikana í Peking í Kína sem fara fram í febrúar 2022. Hann er með 290.75 WSPL-punkta í Big Air og er númer 81 á heimslista í þeirri grein. Á síðasta keppnistímabili keppti hann á 18 alþjóðlegum snjóbrettamótum þar á meðal á World Cup í Kreischberg þar sem hann náði 60. sæti. Benedikt keppti einnig á 8 European Cup mótum og náði best 8. sæti. Benedikt endaði 5 sinnum meðal 10 efstu manna þar af 3 sinnum á verðlaunapalli í þessum mótum öllum.

Benedikt keppir á Endeavor bretti með Union bindingum og Salomon skóm. Keppnisfatnaðurinn kemur frá Oaklay og Endeavor, undirfatnaðurinn frá X-Bionic og hlífðarfatnaðurinn frá 66°Norður.

Skíðasamband Íslands styður Benedikt fjárhagslega sem A-landsliðsmann við að ná markmiðum sínum. Þá er hann einnig studdur dyggilega af fjölskyldu sinni, Endeavor Snowbord Canada og Union Binding.