Baldur Vilhelmsson snjóbrettamaður

Baldur Vilhelmsson er fæddur 18. júlí 2002. Hann býr á Akureyri en æfir í vetur með snjóbrettaliðinu Why Ain’t you í Austurríki sem er samstarfsaðili Skíðasambands Íslands. Baldur er einn þriggja íslensku snjóbrettamannanna sem keppir reglulega í World Cup og European Cup mótum.

Baldur byrjaði að æfa 9 ára gamall með Skíðafélagi Akureyrar þegar félagið stofnaði brettadeild. Æfingasvæðið var Hlíðarfjall þar sem handmokaðir voru pallar á þeim tíma. Hann var einnig duglegur að nýta sér ísinn sem safnaðist saman aftan við Skautahöllina á Akureyri þegar skautafélagið skóf ísinn í höllinni og henti uppskafinu út fyrir húsið. Baldur var tvö ár í NTG menntaskólanum í Noregi þar sem hann æfði og keppti.

Baldur reynir við lágmörk fyrir vetrarólympíuleikana í Peking í Kína sem fara fram í febrúar 2022. Hann er með 332,27 WSPL-punkta í SS og er númer 88 á heimslista í þeirri grein. Á síðasta keppnistímabili keppti hann á 15 alþjóðlegum snjóbrettamótum þar á meðal á World Cup í Silvaplana þar sem hann náði 43. sæti. Baldur keppti einnig á nokkrum European Cup mótum og náði best 6. sæti. Baldur endaði 4 sinnum meðal 10 efstu manna þar af 3 sinnum á verðlaunapalli í þessum mótum öllum.

Baldur keppir á Lobster bretti og Burton skóm. Keppnisfatnaðurinn kemur frá Horsefeathers, undirfatnaðurinn frá X-Bionic og hlífðarfatnaðurinn frá 66°Norður.