Andrésar andar leikarnir 2024

48. Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum verða haldnir af Skíðafélagi Akureyrar (SKA) í Hlíðarfjalli við Akureyri dagana 24.-27. apríl 2024

Andrésarleikarnir eru stærsta skíðamót landsins með tæplega 900 keppendur á aldrinum 4-15 ára ár hvert. Þeim fylgja þjálfara, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 3-4000 manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti.

Andrésarleikarnir eru afar mikilvægur viðburður fyrir alla bæjarbúa, fyrirtækin í bænum, barnamenningu bæjarins, ásamt því að vera mikilvægasti einstaki vetraríþróttaviðburður sem fram fer hér á svæðinu á hverju ári.

Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein verið að eflast og stækka innan leikanna.

Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki s.l. u.þ.b. 10 ár, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Nú um nokkurra ára skeið hefur 4 og 5 ára börnum einnig boðið að taka þátt í leikunum. Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að sigra. Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár eru 86 börn á þessum aldri skráð til leiks.

Nýlunda í ár er að á leikunum verður kynning á skíðaskotfimi sem hefur verið vaxandi íþrótt á Íslandi undfarin ár, en greinin nýtur mikilla vinsælda víða um heim.

Eftir frábæran skíðavetur um allt land eru aðstæður í Hlíðarfjalli eins og þær gerast allra bestar. Mikill snjór á öllu svæðinu og enn bólar ekkert á “vorfæri” í brekkunum.

Undirbúningur mótsins hefur staðið yfir síðan s.l. haust og búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár.

Andrésarleikarnir eru alltaf hápunktur hvers skíðavetrar hjá börnunum og marga sem þyrstir í að koma til Akureyrar og taka þátt í gleðinni.

Nú eru 876 börn skráð frá 16 félögum á Íslandi. Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 156 keppendur, en Skíðadeild Ármanns eru næst fjölmennastir með 104 þátttakendur.

Í ár er fjölgun í öllum greinum skíðaíþróttarinnar, en metfjöldi er að taka þátt í skíðagöngu á leikunum og eru 186 börn skráð þar til leiks. Alpagreina þátttakendur eru 638 og 92 taka þátt í snjóbretta greinum. Auk þess eru mörg börn að taka þátt í fleiri en einni grein skíðaíþróttarinnar.

Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri síðasta vetrardag miðvikudagskvöldið 24. apríl að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá Lundarskóla/Íþróttasvæði KA kl. 19. Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir. Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í Íþróttahöllinni eru í lok hvers keppnisdags.

Líflegur fréttaflutnignur verður á Facebook síðu leikanna auk þess sem úrslit og fleiri fréttir verða birtar á www.skidi.is

Sjá dagskrá leikanna til frekari upplýsinga.

Ef frekari upplýsinga er óskað: 

 

f.h. Andrésarnefndar SKA

Gísli Einar Árnason, gislieinar@gmail.com gsm: 862 8607