Andlát: María Guðmundsdóttir Toney

María Guðmundsdóttir
María Guðmundsdóttir
María Guðmundsdóttir Toney, fyrrverandi landsliðskona í alpagreinum, lést 2. september eftir baráttu við veikindi.
 

María var 29 ára gömul, en hún greindist með mjög sjaldgæft krabbamein í milta í kringum áramót.

Allt frá unga aldri var María öflug skíðakona enda svo sannarlega með skíðagen. María fór ung til Noregs þar sem hún stundaði nám við NTG skíðamenntaskólann í Geilo og stundaði skíðaiðkun sína samhliða náminu með skólaliðinu. María varð margfaldur íslandsmeistari í öllum greinum alpagreina, en það er svig, stórsvig, samhliðasvig og alpatvíkeppni. Hennar fyrsti íslandsmeistaratitill í fullorðinsflokki var árið 2009 þegar hún sigraði svigið. María tók þrisvar þátt á HM unglinga og tvisvar þátt á HM fullorðinna þar sem hennar besti árangur var 36.sæti í svigi árið 2015 í Bandaríkjunum. Hennar besta alþjóðlega mót á ferlinum var þegar hún náði 4.sætinu í Norður-Ameríku bikar árið 2016 og fékk fyrir það 12.58 FIS stig sem má segja að samsvari því að vera meðal 30 bestu skíðakonum í heiminum á þeim tímapunkti.

María var ekki einungis frábær skíðakona því hún var afbragsð námsmaður, frábær liðsfélaga og ekki síst vinur vina sinna. Það vantaði aldrei bros á Maríu og var hún alltaf fyrst til að hughreysta liðsfélaga ef illa gekk í brekkunum. María var frábær fyrirmynd og skilur eftir sig stórt skarð í skíðaheiminum. 

Skíðasamband Íslands sendir fjölskyldu Maríu og öðrum aðstandendum sínar dýpstu samúðarkveðju.

María verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju föstudaginn 16. september klukkan 13.