Æfingaferð hæfileikamótunar SKÍ til Stubai heppnaðist afar vel

Æfingaferð hæfileikamótunar SKÍ til Stubai heppnaðist afar vel❄️

Hæfileikamótunarhópar Skíðasambands Íslands í alpagreinum og snjóbrettum héldu nýverið í æfingaferð til Stubai í Austurríki þar sem æft var af krafti í frábærum aðstæðum.

Í ferðinni tóku þátt 40 iðkendur í alpagreinum með sex þjálfurum, auk 28 snjóbrettaiðkenda og fjögurra þjálfara. Með í för voru einnig einn auka bílstjóri og fararstjóri frá Skíðasambandi Íslands. Hópurinn var fjölmennur og þurfti því að koma sér fyrir á tveimur hótelum á svæðinu.

Alpagreinahópurinn æfði í 9 daga uppi á jöklinum þar sem aðstæður voru eins og best verður á kosið, en snjóbrettahópurinn æfði í átta daga á fjallinu og tók síðan einn dag í Banger Park þar sem var æft á loftdýnu, sem var kærkomin tilbreyting og góð viðbót við jökulæfingarnar. Hópurinn heimsótti einnig trampólíngarð þar sem æfð var líkamsstjórnun og færni í lofti.

Allir þátttakendur stóðu sig frábærlega bæði innan vallar og utan, voru landi og þjóð til sóma og sýndu flott viðmót, vinnusemi og samheldni.

Skíðasamband Íslands vill þakka öllum fyrir frábæra ferð og sérstaklega þjálfurunum fyrir faglegt skipulag og mikla elju í starfi. SKÍ er sannfært um að framtíðin sé björt hjá þessum flottu hópum og íþróttagreinum.