Tour de Ski lokið - Flottur endir hjá Snorra

Snorri Einarsson á fullu í dag. Mynd: Nordic Focus
Snorri Einarsson á fullu í dag. Mynd: Nordic Focus

Tour de Ski mótaröðin kláraðist í dag með 10 km göngu í Val di Fiemme. Lokakeppnin var hin fræga "final climb" eða síðasta klifrið en sú keppni er alls 10 km að lengd og síðustu 3,5 km eru upp skíðabrekku með mestum halla yfir 40% og alls er hækkunin 420 metrar. Notast var við frjálsa aðferð og hópræsingu og hóf Snorri leik nr. 43. Í byrjun voru nánast allir keppendur í þéttum hóp en þegar komið var í klifrið fór aðeins að skilja á milli manna. Snorri náði virkilega góðri göngu og sérstaklega var hann flottur í klifrinu og að lokum endaði hann í 30.sæti og náði því að vinna sig upp um 13 sæti í keppni dagsins. Voru þetta bestu úrslit Snorra í mótaröðinni.

Í heildarkeppninni endaði Snorri í 41.sæti af alls 84 keppendum sem tóku þátt í mótaröðinni.

Öll úrslit frá Val di Fiemme má sjá hér.