Fræðslumál

Undanfarin ár hafa fræðslumál hjá SKÍ ekki verið nægilega góð. Lítil festa hefur verið í námsefni sem og námskeiðahaldi og kennurum. Þjálfaramenntun er mikilvæg í íþróttastarfi og við þurfum að standa okkur betur í þeim málum. 

Fræðsluskipulag SKÍ er byggt upp eftir fræðsluskipulagi ÍSÍ og sér SKÍ um kennslu á sérgreinahluta hvers stigs fyrir sig. Fræðsluskipulag SKÍ byggir þannig á áfangaskiptu kerfi ÍSÍ og verður almenni hluti þjálfarastiganna alfarið í umsjón ÍSÍ. 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og sambandsaðilar þess stefna að því:

  1. að allir þjálfarar sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi hafi fullnægjandi og viðeigandi menntun til þeirra þjálfarastarfa sem þeir vinna. 
  2. að tryggja réttindi allra þjálfara með fullnægjandi og viðeigandi menntun til að starfa við þjálfun á vegum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.
  3. að við samninga um starfskjör þeirra þjálfara sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi verði tekið tillit til menntunar þeirra, reynslu og annars sem aukið getur hæfni þeirra sem þjálfa. 
  4. að vinna að því að mikilvægi þjálfarastarfsins og nauðsyn á góðri þjálfaramenntun öðlist aukna viðurkenningu, bæði innan íþróttahreyfingarinnar og meðal almennings. 

Í vetur verður tekið á fræðslumálum og þá sérstaklega þjálfaramenntun í öllum greinum. Í alpagreinum mun SKÍ vinna náið með Bandaríska skíðasambandinu (USSA) um efni og kennslu á fyrstu þremur stigunum. Þjálfararmenntunin frá Bandaríska skíðasambandinu er á heimsmælikvarða og því um frábært skref í menntunarmálum þjálfara í alpageinum um að ræða. Þjálfarar sem klára námskeiðin fá full réttindi til þjálfunnar á Íslandi og í Bandaríkjunum, en einnig gilda námskeiðin sem alþjóðleg réttindi. Með því að breyta yfir í Bandaríska kerfið teljum við okkur fá betri festu í námsefni sem og kennslu. Áætlað er að halda Þjálfari 1 og 2 í vetur. 

Í skíðagöngu og snjóbrettum er ekki búið að ákveða hvaða efni skuli notast við en sú vinna er í gangi. 

Ásamt því að bæta námskeiðahaldið mun SKÍ fara í þá vinnu að taka saman lista yfir þjálfaramenntun þjálfara á Íslandi.

Mikilvægt er að hafa reglulegri eftirlitsmannanámskeið en árlega er verið að uppfæra reglur og reglugerðir í hreyfingunni okkar og því þurfa eftirlitsmenn sífellt að vera að uppfæra þekkingu sína. 

Við bendum á Fræðslumál á heimasíðunni en þar verður hægt að finna allar upplýsingar um fræðslumál sambandsins í framtíðinni.