Vel heppnaður haustfundur SKÍ

Haustfundi SKÍ lauk seinni partinn í gær og var einstaklega vel heppnaður. Um 30 manns mættu frá 13 aðildarfélögum.

Haustfundur er í raun nýr fundur en árlega á haustin hefur verið boðað til formannafundar og á vorin hefur verið ársfundur annað hvert ár á móti Skíðaþingi. Ákveðið var að sameina formannafund og ársfund í einn stærri fund á haustin. Er þetta form komið til að vera og á haustin verður því lengri og vegalegri fundur í framtíðinni.

Dagskrá fundarins var fjölbreytt en seinni part á föstudag var farið yfir starfsemi SKÍ, kynning á vinnu við nýja afreksstefnu og farið yfir og greitt atkvæði um reglugerðarbreytingar sem lágu fyrir fundinn.
Fyrir hádegi á laugardag var farið vel yfir mótamálin, en í dag eru nánast öll mót orðin alþjóðleg og meiri kröfur og reglur sem þarf að fylgja. Farið var yfir ferla við umsókn móta og hlutverk SKÍ í mótamálum. Tvö erindi fylgdu í kjölfarið, annars vegar hlutverk eftirlitsmanns og hlutverk mótsstjóra. Eftir hádegi á laugardag voru málstofur fyrir allar þrjár greinarnar, alpagreinar, skíðagöngu og snjóbretti. Lífleg umræða var og góð vinna unnin.

Það er von SKÍ að aðildarfélög sambandsins hafi verið ánægð með þetta nýja fyrirkomulag og vonandi að þessi fundur eigi eftir að nýtast vel í framtíðinni.

Allar reglugerðir hafa verið uppfærðar eftir breytingar fundarins og má sjá þær allar hér.