Úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ

Frá úthlutun í dag
Frá úthlutun í dag

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, fimmtudaginn 8. desember 2016, tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2017. Styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema samtals rúmlega 150 milljónum króna að þessu sinni, en um 100 m.kr. verður úthlutað síðar á árinu 2017 og þá eftir nýjum reglum Afrekssjóðs sem verið er að vinna að.

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 26 sérsamböndum ÍSÍ. Hljóta öll þessi sambönd styrk vegna sinna landsliðsverkefna, þótt um misháar upphæðir sé að ræða. Sótt var um styrki til sjóðsins vegna verkefna 64 einstaklinga og er aðeins hluti þeirra verkefna styrktur, eða verkefni 12 íþróttamanna. Rétt er að leggja áherslu á að það eru sérsambönd sem hljóta styrki vegna verkefna tilgreindra íþróttamanna, en ekki íþróttamennirnir sjálfir. Þannig eru styrkir sjóðsins til sérsambanda vegna verkefna íþróttamanna fyrst og fremst hugsaðir vegna kostnaðar við þátttöku í mótum og keppnum og undirbúnings vegna þeirra.
Hæstu styrki fyrir árið 2017 hljóta þau sambönd sem eru með lið sem eru að taka þátt í lokamótum stórmóta. Þannig hlýtur Handknattleikssamband Íslands heildarstyrk að upphæð 28,5 m.kr. og Körfuknattleikssamband Íslands heildarstyrk að upphæð 18,5 m.kr. Sundsamband Íslands hlýtur heildarstyrk að upphæð kr. 13.550.000 og Frjálsíþróttasamband Íslands heildarstyrk að upphæð 12 m.kr. Þessi fjögur sérsambönd njóta samtals tæplega helming þeirrar upphæðar sem er til úthlutunar til sérsambanda að þessu sinni og þau 10 sérsambönd sem hljóta hæstu styrkina fá samanlagt um 80% af úthlutun sjóðsins.

Styrkur Skíðasambandsins úr Afrekssjóði ÍSÍ er fimmta stærsta úthlutun til sérsambanda ÍSÍ á árinu 2017. Jafnframt er styrkurinn sá stærsti sem SKÍ hefur fengið úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Skíðasamband Íslands (SKÍ)
Vegna landsliðsverkefna í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbrettum, undirbúnings fyrir Vetrarólympíuleikar 2018 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 9.800.000,-

Heildarúthlutun til sérsambanda ÍSÍ kr. 150.450.000,-