Tour de Ski - Glæsilegur endir hjá Snorra

Snorri Einarsson að koma í mark eftir loka klifrið. Mynd: NordicFocus
Snorri Einarsson að koma í mark eftir loka klifrið. Mynd: NordicFocus

Tour de Ski mótaröðinni í skíðagöngu lauk í dag. Mótaröðin hófst 29.desember 2018 og keppt var á sjö mótum í þrem löndum. Mótsstaðirnir voru svo fjórir, Toblach á Ítalíu, Val Müstair í Sviss, Oberstdorf í Þýskalandi og Val di Fiemme á Ítalíu.

Keppni dagsins var hið fræga loka klifur (Final climb) í Val di Fiemme. Farnir voru 9 km með frjálsri aðferð og notast var fyrir eltigöngu fyrirkomulag. Virkaði það þannig að ræst var út eftir heildarstöðunni á mótaröðinni þannig að fyrsti keppandi fékk forskot á þá næstu. Sá sem kom svo fyrstur í mark sigraði mótaröðina.

Snorri Einarsson hóf leik nr. 41, átt frábæra göngu og endaði að lokum í 37.sæti. Það þýðir að hann endaði í 37.sæti í heildarkeppni Tour de Ski. Þar sem um eltigöngu var Snorri frekar langt á eftir þegar hann hóf leik.

En þegar horft er á keppni dagsins, án forskots, endaði Snorri í 25.sæti og fær fyrir það sex heimsbikarstig. Í keppni dagsins var hann t.d. á undan Johannes Hoesflot Klaebo sem sigraði Tour de Ski mótaröðina. Einnig má nefna að Snorri var með besta tímann af öllum keppendum í dag á einum af millitímunum. Er þetta þriðji besti árangur Snorra í heimsbikarnum á ferlinum.

Hér má sjá heildarúrslit frá Tour de Ski ásamt keppni dagsins.

Snorri mun taka smá hvíld frá heimsbikarnum eftir þessa erfiðu mótaröð. Hann stefnir á að keppa á heimsbikarmóti í Ulricehamn í Svíþjóð seinna í janúar. Stærsta mót vetrarins hjá honum verður svo klárlega HM í Seefeld sem fer fram í lok febrúar.