Snorri Einarsson: „verið draumi líkast“

Snorri Einarsson - WC í Lillehammer - Mynd: NordicFocus
Snorri Einarsson - WC í Lillehammer - Mynd: NordicFocus

Snorri Einarsson tekur þátt í sínu síðasta heimsbikarmóti fyrir áramót um helgina. Að þessu sinni er keppt í Toblach á Ítalíu og verður keppt í tveimur 15 km göngum sem henta Snorra vel.

„Mér líður vel og formið hefur verið gott frá því á fyrsta heimsbikarmótinu í Ruka. Ég hef verið nokkuð stöðugur og náð góðum úrslitum í topp 30, en kannski maður taki fleiri áhættur og sjái hvað gerist um helgina“ sagði Snorri í dag þegar við heyrðum í honum við loka undirbúning fyrir morgundaginn.

„Í rauninni hefur árangurinn verið draumi líkastur hingað til, það er frábært að ná að vera í topp 30 en ég held að ég geti náð í topp 20 ef allt gengur upp. Aðstæður í Toblach núna eru krefjandi, það var glerhörð 5 km braut í gær en síðustu nótt snjóaði mjög mikið og því hefur brautin mýkst. Það á að kólna mikið í nótt þannig vonandi verða jafnar aðstæður fyrir alla á morgun.“

Snorri Einarsson mun hefja leik kl.13:07 á morgun með rásnúmer 74 af alls 91 keppanda. Ráslistann er hægt að sjá hér en keppnin sjálf hefst kl.12:30.

Lifandi tímatöku verður hægt að sjá hér og einnig verður hægt að horfa á mótið á sjónvarpsstöðum eins og Eurosport, NRK og SVT.