Snorri byrjar Ski Tour vel - 36.sæti eftir Östersund

Snorri Einarsson í brautinni í gær, sunnudag. Mynd: NordicFocus
Snorri Einarsson í brautinni í gær, sunnudag. Mynd: NordicFocus

Snorri Einarsson, A-landsliðsmaður í skíðagöngu, hóf leik um helgina á Ski Tour mótaröðinni sem er hluti af heimsbikarmótaröðinni í skíðagöngu. Um er að ræða sex keppnir á níu dögum á alls fjórum keppnissvæðum. Byrjað er í Östersund í Svíðþjóð og endað í Þrándheimi í Noregi með viðkomu í Åre, Svíþjóð og Meråker, Noregi. 

Á laugardaginn fór fram 15 km F og var Snorri með rásnúmer 8 af alls 90 keppendum. Snorri átti virkilega gott mót og endaði í 42.sæti, einungis 1:44.1 mínútu á eftir fyrsta manni. Fyrir það fékk Snorri 45.22 FIS stig sem eru hans næst bestu stig á heimslista í vetur.

Í gær sunnudag fór fram 15 km C eltiganga þar sem ræst var út eftir úrslitum laugardagsins og ræsti Snorri því út nr. 42. Snorri gekk jafnt og þétt og náði 33. besta tímanum af öllum keppendum og þar með 36.sætið í heildina. 

Að loknum tveimur keppnum er Snorri því í 36.sæti af alls 88 keppendum. Næsta keppni er á morgun, þriðjudag, en það er sprettganga í Åre, Svíþjóð.

Öll úrslit frá Östersund má sjá hér.