Snorri 34.sæti í heimsbikar - Bæting á heimslista

Snorri Einarsson í dag. Mynd: NordicFocus
Snorri Einarsson í dag. Mynd: NordicFocus

Í morgun keppti Snorri Einarsson á heimsbikarmóti í skíðagöngu sem fór fram í Ulricehamn í Svíþjóð. Keppt var í 15 km göngu með frjálsri aðferð og var Snorri með rásnúmer 51 af alls 80 keppendum.

Snorri átti virkilega góðan dag og endaði í 34.sæti og fékk 30.24 FIS stig sem er mikil bæting en á heimslista FIS er hann með 57.23. Jafnframt eru þetta bestu úrslitin hans FIS stigalega séð frá því í nóvember 2017 þegar hann endaði í 22.sæti í heimsbikar í Ruka, Finnlandi.

Heildarúrslit má sjá hér.

Í heildarstigakeppninni í lengri vegalengdum er Snorri í 71.sæti eftir keppni dagsins. Einungis 30 efstu sætin gefa heimsbikarstig og því fékk hann engin fleiri stig í dag.

Næstu daga mun Snorri vera við æfingar í Lillehammer í Noregi þangað til hann keppir í næsta heimsbikar sem verður í Cogne á Ítalíu 16.-17.febrúar. Strax í kjölfarið er svo heimsmeistaramótið sem fer fram í Seefeld í Austurríki dagana 20.febrúar til 3.mars, en þar hefur Snorri beinan þátttökurétt í aðalkeppnum allra lengri vegalengda.