Skíðafólk ársins 2017

Skíðasamband Íslands hefur valið skíðakonu og skíðamann ársins 2017.

Skíðakona ársins er Freydís Halla Einarsdóttir (alpagreinar) og skíðamaður ársins er Snorri Einarsson (skíðaganga).

Skíðakona ársins - Freydís Halla Einarsdóttir

Freydís átti mjög góðan vetur í brekkunum á árinu. Hún náði í fyrsta sinn, á sínu öðru tímabili í Norður Ameríku bikarnum, að komast í topp 10 þegar hún náði 6.sæti í svigi í Burke Mountain í Bandaríkjunum.

Þá varð hún 15 sinnum á tímabilinu í topp 10 á alþjóðlegum mótum erlendis og þar af fimm sinnum í einum af efstu þremur sætunum og sigraði eitt mót, í stórsvigi í Gore Mountain í Bandaríkjunum. Einnig endaði hún í 11.sæti á bandaríska meistaramótinu í svigi sem var mjög sterkt.

Hún varð í níunda sæti í undankeppni heimsmeistaramótsins í St. Moritz í stórsvigi og fylgdi þeim árangri eftir með því að lenda í 47.sæti í aðalkeppninni.

Hún varð einnig þrefaldur Íslandsmeistari, í stórsvigi, alpatvíkeppni og samhliðasvigi.

Hún bætti sig um 260 sæti á heimslista FIS í stórsvigi á árinu og er í 420.sæti. Þá er hún í 202.sæti á heimslista FIS í svigi.

Sæti á heimslista:

  • Svig: 202.sæti
  • Stórsvig: 420.sæti

Helstu úrslit:

  • 6.sæti – Svig, Norður Ameríkubikar, Burke Mountain Bandaríkjunum, 05.01.17
  • 3.sæti – Svig, háskólamót, Whiteface Mountain Bandaríkjunum 21.01.17
  • 1.sæti – Stórsvig, FIS mót, Gore Mountain Bandaríkjunum 23.01.17
  • 6.sæti – Svig, háskólamót, Cannon mountain Bandaríkjunum 28.01.17
  • 5.sæti – Stórsvig, háskólamót, Stowe Mountain Resort Bandaríkjunum 03.02.17
  • 9.sæti – Stórsvig, undankeppni, Heimsmeistaramót St. Moritz Sviss, 13.02.17
  • 47.sæti – Stórsvig, Heimstmeistaramót, St. Moritz Sviss, 16.02.17
  • 5.sæti – Svig, FIS mót, Sunday River Resort Bandaríkjunum, 09.12.17
  • 2.sæti – Svig, FIS mót, Sunday River Resort Bandaríkjunum, 10.12.17
  • 11.sæti – Svig, Bandaríska meistaramóti, Sugarloaf, 26.03.2017

Skíðamaður ársins - Snorri Einarsson

Snorri Einarsson er í sérflokki í skíðagöngu á Íslandi. Hann hefur náð bestum árangri allra skíðgöngumanna frá upphafi innan SKÍ á árinu 2017. Í raun er einungis Kristinn Björnsson sem hefur náð betri árangri.

Hann náði 39. og 43. sæti á heimsmeistaramótsins fyrr á þessu ári þrátt fyrir veikindi rétt fyrir mót. Í haust hefur hann blómstrað í heimsbikarnum sem er sterkasta mótaröð í heimi og var þrisvar meðal efstu 30 og hefur því fengið heimsbikarstig. Besti árangurinn hingað til er 22.sæti í 15 km með hefðbundinni aðferð í Ruka í Finnlandi.

Snorri endaði í 4.sæti á sterku FIS móti í nóvember í Finnlandi. Var það undirbúningsmót fyrir heimsbikarinn.

Snorri hefur nú þegar unnið sér inn þátttökurétt á Vetrarólympíuleikunum í febrúar 2018 með árangri sínum á árinu. Er hann eini íslenski keppandinn sem er kominn með „sitt eigið“ sæti en aðrir keppendur eru inni á kvóta eins og staðan er í dag.

Sæti á heimslista:

  • Lengri vegalengdir: 174.sæti

Helstu úrslit:

  • 39.sæti – 30 km skiptiganga – HM, Lahti Finnland 25.2.2017
  • 43.sæti – 15 km C – HM, Lahti Finnland 1.3.2017
  • 4.sæti – 15 km F – FIS mót, Olos Finnland 12.11.2017
  • 10.sæti – 10 km C – FIS mót, Olos Finnland 11.11.2017
  • 22.sæti – 15 km C – Heimsbikar, Ruka Finnland 25.11.2017
  • 27.sæti – 15 km F eltiganga – Heimsbikar, Ruka Finnland 26.11.2017
  • 33.sæti – 30 km skiptiganga – Heimsbikar, Lillehammer Noregur 3.12.2017
  • 29.sæti – 15 km F – Heimsbikar, Davos Sviss 10.12.2017