Ski Tour - Svekkjandi endir þegar Snorri endaði í 38.sæti

Mikið snjóaði á keppendur í brautinni í dag. Mynd: NordicFocus
Mikið snjóaði á keppendur í brautinni í dag. Mynd: NordicFocus

Snorri Einarsson lauk keppni á Ski Tour mótaröðinni í dag þegar keppt var í 30 km eltigöngu með hefðbundinni aðferð. Keppnin fór fram í Þrándheimi í Noregi en nokkuð erfiðar aðstæður voru á mótsstað. Hitastigið var í kringum frostmark með snjókomu sem gerði smurningsmönnum mjög erfitt fyrir að græja skíðin fyrir keppendur.

Snorri átti því miður ekki góðan dag þar sem smurning á skíðunum var ekki nógu góð. Erfiðlega gekk að fá grip og sömu sögu er hægt að segja um rennslið. Fyrir keppni dagsins var Snorri í 22.sæti í heildarkeppni Ski Tour mótaraðarinnar en endaði að lokum í 38.sæti. Gríðarlega svekkjandi eftir að hafa staðið sig frábærlega í fyrstu fimm keppnum mótaraðarinnar. Klárlega stendur uppúr 18.sætið í 34 km göngunni í Meråker sem er besti árangur Snorra á ferlinum. Ljóst er að hægt er að byggja ofaná þessi úrslit og augljóslega fer keppni dagsins í hinn fræga reynslubanka.

Heildarúrslit má sjá hér.

Snorri tekur næst þátt á heimsbikarmótaröðinni þegar keppt verður í 50 km göngu með hefðbundinni aðferð í Oslo, Noregi. Sú keppni fer fram sunnudaginn 8.mars.